Niðurskurður HAK fyrir næsta ár um 15 milljónir

Reynt verður að láta samdráttinn hjá  Heilsugæslustöðinni á Akureyri bitna sem minnst á sjúklingum.
Reynt verður að láta samdráttinn hjá Heilsugæslustöðinni á Akureyri bitna sem minnst á sjúklingum.

Heilsugæslustöðinni á Akureyri er gert að spara um 1,5% á næsta ári og við bætist að það stefnir í halla á rekstrinum fyrir þetta ár. Niðurskurður fyrir næsta ár verður um því um 15 milljónir króna eða 2,7% af rekstri. Að sögn Margrétar Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra er verið að fara yfir það þessa dagana hvernig við því verður brugðist.

“Það stefnir í halla á rekstrinum þetta árið og því þarf að spara meira á því næsta. Við hefðum sennilega þurft að ganga harðar fram í niðurskurði í fyrra en auðvitað vonuðum við að það yrði ekki áframhald á þessu ástandi. Við höfum ekki af miklu öðru að taka en mannafla úr þessu og það blasir því við að þjónustan verði eitthvað skert.”

Margrét segir að verið sé að velta öllu við, reynt verði af fremsta megni að láta samdráttinn bitna sem minnst á sjúklingum en úr þessu verði ekki hjá því komist. Heildarkostnaður við rekstur Heilsugæslustöðvarinnar á þessu ári er áætlaður um 540 milljónir króna. Þar starfa um 70 manns í 52 stöðugildum en meðal starfsemi HAK má telja heimilislækningar, heilsuvernd og heimahjúkrun.

Margrét segir að heilsufar bæjarbúa sé þokkalegt um þessar mundir. “Árlegu átaki í inflúensubólusetningu er lokið þótt enn sé hægt að fá sprautu en ekki hefur enn spurst til infúensunnar sjálfar. Vel gengur að bólusetja stúlkur í grunnskólum gegn veirum sem valda leghálskrabbameini og heilsufar bæjarbúa virðist vera  þokkalegt þó svo að við verðum aldrei laus við smá haustpestir,” segir Margrét.

 

Nýjast