Stjórn Akureyrarstofu bendir á að svæðisútvarp landshlutanna sé og hafi verið gríðarlega mikilvægur hlekkur í miðlun frétta, menningarviðburða og almennra samskipta fyrir landsbyggðina um árabil. Svæðisútsendingarnar séu til fyrirmyndar í starfsemi Ríkisútvarpsins og skapi því mikla sérstöðu. Stjórnin skorar á stjórnendur útvarpsins að draga áformin til baka og leita annarra leiða til lækkunar á kostnaði stofnunarinnar.
Fyrr í dag sendu stéttarfélögin í Alþýðuhúsinu á Akureyri frá sér eftirfarandi ályktun vegna svæðisstöðva RÚV:
Stéttarfélögin í Alþýðuhúsinu á Akureyri lýsa yfir miklum áhyggjum og harma mjög að hætta skuli útsendingum Svæðisútvarpsins á Akureyri og annarra svæðisstöðva. Félögin skora á útvarpsstjóra, menntamálaráðherra og ríkisstjórnina alla að draga þessa ákvörðun strax til baka og finna aðrar leiðir til að draga úr rekstrarkostnaði. Stöðvarnar hafa gengt mjög mikilvægu menningar- og samfélagslegu hlutverki. Landsbyggðin verður sífellt minna áberandi í fjölmiðlum og því er mikilvægt að standa vörð um þessar svæðisstöðvar og halda starfsseminni óbreyttri þannig að þær geti áfram þjónað svæðum þar sem þær gegna lykilhlutverki. T.d. í fréttaflutningi og í sambandi við tilkynningar, en stöðvarnar hafa ekki síst nýst vel fyrir fyrirtæki og stofnanir til að ná til íbúa svæðanna. Það er slæmt þegar opinber aðili leggur niður störf í þessum mæli við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu.
Stéttarfélögin í Alþýðuhúsinu eru:
Eining-Iðja, Félag byggingamanna Eyjafirði, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Rafvirkjafélag Norðurlands, Sjómannafélag Eyjafjarðar og Verkstjórafélag Akureyri og nágrennis.