Neyðin víða mikil og stefnir í aukningu milli ára

„Neyðin er mikil víða, það er alveg ljóst og mér sýnist stefna í aukningu á milli ára,“ segir Elín Kjaran sem sæti á í Velferðarsjóði á Eyjafjarðarsvæðinu. Nú stendur yfir skráning vegna jólaaðstoðar, en henni lýkur á morgun, föstudag.  Hún segir að fólki sem stendur höllum fæti sé veitt aðstoð árið um kringum en vanalega óski flestir eftir henni fyrir jólin.

Alls fengu rúmlega 400 fjölskyldur og einstaklingar aðstoð á síðastliðnu ári sem var mikil aukning frá árinu þar á undan, en um 25% aukning var á hjálparbeiðnum milli áranna 2019 og 2020.  Í fyrra hafði aldrei áður borist svo margar umsóknir frá því samstarf um Velferðarsjóðinni hófst. Jólaaðstoðin er samstarfsverkefni Mæðrastyrksnefndar, Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins á Akureyri og hefur það staðið yfir frá árinu 2012. Fyrr á árinu var samstarf þessarar fjögurra aðila útvíkkað og starfsemi í gangi allt árið um kring, fyrir efnaminni fjölskyldur og einstaklingar á Eyjafjarðarsvæðinu og var nafninu af því tilefni breytt í Velferðarsjóður á Eyjafjarðarsvæðinu.

Inneignarkort í matvöruverslanir fyrir 16 milljónir í fyrra

Þrátt fyrir mikla aukningu milli ára kom sjóðurinn vel út eftir árið 2020, en stuðningur frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum hefur heldur aldrei verið meiri en var í fyrra. Því var hægt að styðja veglega við þau heimili sem á þurftu að halda. Sem dæmi má nefna að sjóðurinn keypti í desember í fyrra inneignarkort í matvöruverslunum fyrir tæplega 16 milljónir króna. Auk þess úthlutaði sjóðurinn matvöru, gjafabréfum, inneignarkortum í verslanir Rauða krossins og Hertex og gaf börnum jólagjafir.

/MÞÞ


Nýjast