Nemendur við raunvísindaskor HA kynna hópverkefni

Á morgun þriðjudaginn 7. apríl frá kl. 15 til 17 munu nemendur við raunvísindaskor Háskólans á Akureyri kynna hópverkefni sem þau hafa unnið að í vetur. Kynningin verður í anddyri Borga við Norðurslóð. Verkefnin eru eftirfarandi: Sjávarfallavirkjun á Íslandi?,  Íslenskt vatn og vefurinn, Akureyri Restaurants Online, Additional Lyric Generator for Country & Western Songs, Vindorka og möguleikar hennar á Íslandi og Fræðsluefni um líftækni og sjávarútvegsfræði á íslensku Wikipediu.  

Sjávarfallavirkjun á Íslandi?

Nemendur á 2. ári í umhverfis- og orkufræðum kanna möguleika á beislun sjávarfallaorku á Íslandi og hagkvæmni slíkra virkjana. Fjallað er almennt um sjávarfallavirkjanir, sögu þeirra og tæknilegar lausnir, auk umhverfisáhrifa.

Íslenskt vatn og vefurinn http://www.lagnaval.is/

Nemendur á 1. ári í umhverfis- og orkufræðum kynna vefinn lagnaval.is og jafnframt fjölbreytileika íslensks neysluvatns, heits og kalds.  Fjallað er um efnaeiginleika vatns og tengsl þess við jarðfræði og loftslag á Íslandi. Sérstök áhersla er lögð á það hvernig unnt er að nota vefinn til að velja lagnaefni sem hentar efnaeiginleikum vatnsins á hverjum stað á landinu.

Akureyri Restaurants Online

Nemendur í tölvunarfræði kynna miðlægt vefumhverfi til pöntunar máltíða frá akureyrskum veitingastöðum. Nemendurnir munu sýna frumgerð hugbúnaðarins.

Additional Lyric Generator for Country & Western Songs

Nemendur í tölvunarfræði kynna hugbúnað til textagerðar í anda bandarískrar sveitatónlistar. Hugbúnaðurinn notast við fyrirliggjandi texta og bætir við hann í samræmi við upplýsingar sem notandinn veitir.

Vindorka og möguleikar hennar á Íslandi.

Nemendur á 2. ári í umhverfis- og orkufræðum gerðu úttekt á vindorku og möguleikum hennar á Íslandi. Þau munu ræða hagkvæmni, umhverfisáhrif og fleiri þætti varðandi beislun vindorku á Íslandi.

Fræðsluefni um líftækni og sjávarútvegsfræði á íslensku Wikipediu

Nemendur á 1. og 2. ári í líftækni og sjávarútvegsfræði vinna að gerð alþýðlegs fræðsluefnis um líftækni, sjávarlíftækni og sjávarútvegsfræði sem gert verður aðgengilegt í Wikipedia alfræðiritinu.

Nýjast