Nemendur Borgarhólsskóla styrkja UNICEF

Borgarhólsskóli á Húsavík. Mynd/Framsýn
Borgarhólsskóli á Húsavík. Mynd/Framsýn

Í Borgarhólsskóla á Húsavík er aðventan þetta árið notuð til að styrkja góð málefni en á heimasíðu skólans kemur fram að undan farin ár hafi nemendur haldið pakkapúkk fyrir jólin og skipst á gjöfum en að gildi þessarar hefðar hafi dvínað. Engu að síður hefur verið tekin ákvörðun um að nýta þann kraft sem felst í hugtakinu „sælla er að gefa en þiggja“.

„Sem dæmi; ef starfsfólk Borgahólsskóla heldur jólapúkk þar sem hver kemur með glaðning að upphæð 2500 krónur væri það andvirði 172.500 króna. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir í frétt á heimasíðu skólans. Ákveðið hefur verið að bæði nemendur og starfsfólk Borgarhólsskóla láti gott af sér leiða með því að gefa fjármuni til góðgerðarsamtaka; til þeirra sem minna mega sín.

„Stjórnendur skólans völdu fjögur ólík góðgerðarsamtök; Velferðarsjóð Þingeyinga, Hjálparstarf kirkjunnar, ABC barnahjálp og UNICEF. Nemendur skólans fengu stutta kynningu á þessum samtökum og kusu á milli þeirra. Samtökin sem fengu flest atkvæði nemenda og fá fjárframlag þeirra þetta árið er UNICEF. Starfsfólk mun áfram líkt og í fyrra styrkja Velferðarsjóð Þingeyinga,“ segir á heimasíðu skólans.

Nemendur fengu umslög með sér heim sem hægt er að setja í fjárframlag að eigin vali og síðan er umslaginu skilað í lok vikunnar. Einnig er hægt að skila umslaginu tómu kjósi viðkomandi að taka ekki þátt.


Athugasemdir

Nýjast