Nemendahópur úr Háskólanum á Akureyri til Tallinn að vinna raundæmi

Íslenski hopurinn fyrir brottför. Mynd/aðsend
Íslenski hopurinn fyrir brottför. Mynd/aðsend

Á dögunum héldu 10 stúdentar í Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri til Tallinn í Eistlandi. Um er að ræða stúdentahóp í námskeiðunum Markaðssetning þjónustu og Neytendahegðun. Kennarar námskeiðanna, Hafdís Björg Hjálmarsdóttir og Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, eru í samstarfsverkefni með TTK háskólanum í Tallinn (Tallina Tehnika körgkool) sem kallast E-CBA. Markmið samstarfsins er að leysa raundæmi í samstarfi við fyrirtæki sem eru nýtt í kennslu. Auk þess þjálfast stúdentar í því að vinna í fjölþjóðlegum hópum og kynna niðurstöður. Samstarfssamningurinn segir til um að hópurinn hittist tvisvar sinnum á verktímanum. Í apríl kom hópurinn fyrst saman á á Akureyri.

Samstarfið er styrkt af Uppbyggingarsjóði EES og Noregs (EEAgrants.org)

Í Tallinn fékk hópurinn að leysa fjögur raundæmi:

  • Noðurstrandaleiðin (e. Arctic Coast Way)
  • Icewear (íslenskt ullarfataframleiðslufyrirtæki)
  • Tale2 (fjarskiptafyrirtæki)
  • Rakvere (kjötvinnslufyrirtæki í norður Eistlandi)

Unnið var í blönduðum hópum íslensku og eistnesku stúdentana. Öll vinna fór fram á ensku og kynningar voru haldnar fyrir fyrirtækin sem vonandi geta öll nýtt sér lausnir og ábendingar stúdentanna vegna úrvinnslu þessara raundæma.

Til að hrista hópinn saman voru eistnesku samstarfsaðilarnir búnir að skipuleggja krullumót í upphafi ferðar. Þar að auki ferðaðist hópurinn til Mõdriku þar sem TTK háskólinn er með annað háskólasvæði. Þar var einni farið í kjötvinnslufyrirtækið Rakvere á svæðinu þar sem stúdentarnir unnu raundæmi sem sneri að ráðningum.

Ujak

Það sem stóð upp úr var góður félagsskapur og hversu lærdómsríkt þetta var, að fá að vinna í mismunandi umhverfi og fara út fyrir þægindarammann með því að vera með kynningar fyrir framan nýtt fólk og á öðru tungumáli. Ég mæli klárlega með því að stúdentar nýti sér svona tækifæri sem standa þeim til boða, segir Hörður Hlífarsson, einn stúdentanna í hópnum.

Vera Kristín segir samstarf af þessu leiti nýsköpun í kennslu og veitir kennurum innblástur í önnur námskeið: „Fyrir nemendur okkar er þetta frábært tækifæri vegna þess leysa verkefni á skömmum tíma, vinna með öðrum nemendum og þjálfa samskiptafærni í rituðu og töluðu máli á ensku. Svona tækifæri er ómetanlegt veganesti fyrir nemendur okkar út í lífið,“ segir Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, aðjúnkt í Viðskiptadeild að lokum.

Rakvere


Athugasemdir

Nýjast