Naumt tap gegn Stjörnunni
KA/Þór tapaði fyrir Stjörnunni með tveggja marka mun í dag, 24-26, er liðin áttust við í KA-heimilinu í dag í N1-deild kvenna í handknattleik. Eftir að hafa lent átta mörkum undir í seinni hálfleik voru norðanstúlku nálægt því að fá eitthvað út úr leiknum en Stjarnan stóð áhlaup KA/Þórs af sér. Stjarnan fer með sigrinum upp í sex stig en KA/Þór hefur áfram tvö stig.
Leikur KA/Þórs og Stjörnunar var hníjafn í byrjun en Stjarnan var þó alltaf skrefinu á undan. Bæði lið spiluðu fantagóðan varnarleik en sóknarleikur KA/Þórs var brösulegur og höfðu Stjörnustúlkur mun minna fyrir sínum mörkum. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan jöfn 5-5 en Stjörnustúlkur höfðu alltaf undirtökin og sigu framúr þegar leið á hálfleikinn. Með góðum leikkafla náðu gestirnir sjö marka forystu, 14-7, þegar fimm mínútur voru til leikhlés. Norðanstúlkur náðu að minnka muninn niður í eitt mark fyrir hlé og staðan 8-14 í hálfleik.
Stjarnan hélt áfram að auka við forskotið í seinni hálfleik og náði átta marka forystu, 23-15, þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. KA/Þór gafst ekki upp og minnkaði muninn í tvö mörk, 24-26, þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Stjarnan náði hins vegar að standa af sér pressu norðanstúlkna í lokin og vann að lokum tveggja marka sigur.
Lokatölur, 24-26.
Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 11 (5), Kolbrún Gígja Einarsdóttir 5, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Erla Tryggvadóttir 3, Kolbrá Ingólfsdóttir 1, Hulda Tryggvadóttir 1.
Varin skot: Frida Petersen 23 (1).
Mörk Stjörnunnar: Sólveig Kærnested 10, Hildur Harðardóttir 4, Hanna G. Stefánsdóttir 4 (2), Jóna Margrét Ragnarsdóttir 3, Rut Steinsen 2, Guðrún Guðjónsdóttir 1.
Varin skot: Kristín Ösp Sævarsdóttir 14, Helga Dóra Magnúsdóttir 5.