Tvær Boeing 767 breiðþotur lentu á Akureyrarflugvelli í gærmorgun þar sem ekki var hægt að lenda í Keflavík vegna brautarskilyrða. Mjög sjaldgæft er að svo stórar vélar lendi á flugvellinum.
Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, segir í samtali við Vikudag að allt hafi gengið vel, en mál sem þessi undirstriki mikilvægi flugvallarins sem varaflugvöll og að efla þurfi flugvöllinn.
Lengi hefur staðið til að stækka flugstöðina og gera nýtt flughlað, en þær framkvæmdir stranda á fjármagni.
„Þessar tvær þotur sem lentu í gær voru t.d. það stórar að það var ekki mikið meira pláss í flughlaðinu fyrir aðrar vélar. Svo er mikil aukning í millilandaflugi hjá okkur. Líklega verður beina flugið enn meira á þessu ári og þá er komin mikil pressa á að stækka flugstöðina,“ segir Hjördís. „Við björgum okkur alveg á flugstöðinni en ef að flugið fer að aukast verulega og fleiri farþegar að koma, þá er alveg ljóst að stækka þarf flugstöðina.“
Fjármagnið dugar ekki til viðhalds
Hjördís segir mikilvægt að fá fjármagn frá ríkinu til nýbyggingar og þróunar á flugvellinum. Það hafi hins vegar gengið erfiðlega undanfarin ár. Hún bendir á að það þurfi 600 milljónir á ári eingöngu til þess að viðhalda starfseminni.
„En við erum hins vegar að fá aðeins í kringum 200 milljónir og því liggur alveg fyrir að það vantar mikið uppá. Frá því að ég hóf störf hjá Isavia árið 2012 hefur aldrei fengist nægilegt fjármagn í viðhald frá ríkinu og það er ljóst að eitthvað þarf að fara að gerast í þessum málum,“ segir Hjördís.