Náttúran og íslensk sönglög í Föstudagshádegi Listasumars
Íslenska náttúran er sterkt afl sem er ekki einungis megnugt að stöðva flugumferð í heiminum og brjóta niður brýr heldur hefur í gegnum aldirnar verið ljóð- og tónskáldum innblástur og getið af sér óumræðanlega dýrmætar perlur, segir í kynningu. Hvert lag á efnisskránni er tileinkað ákveðnum hlut eða fyrirbæri sem finnst í eða tengist íslenskri náttúru. Til að auka áhrif tónlistarinnar verða flytjendur umkringdir ljósmyndum af náttúru Íslands. Samspil orða, tónlistar og mynda munu skapa andrúmsloft sem verður einstök upplifun fyrir tónleikagestinn. Textar laganna samanstanda af nokkrum gömlum þjóðvísum og ljóðum eftir mörg af okkar ástsælustu skáldum: Einar Benediktsson, Tómas Guðmundsson, Jónas Hallgrímsson, Huldu, Höllu Eyjólfsdóttur og Halldór Laxness og fleiri. Lögin eru eftir Inga T. Lárusson Steingrím Thorsteinsson, Sigvalda Kaldalóns, Sigurð Þórðarson, Atla Heimi Sveinsson, Jórunni Viðar, Karl O. Runólfsson og fleiri. Miðaverð 1.500 kr.