Náttúran er auðlindin sem allt byggist á

Hörður Sigurbjarnarson, skipstjóri og frumkvöðull í ferðaþjónustu.
Hörður Sigurbjarnarson, skipstjóri og frumkvöðull í ferðaþjónustu.

Vikublaðið ræddi við Hörð Sigurbjarnarson fyrir skemmstu þar sem komið var inn á framtíð ferðaþjónustu á svæðinu en hann er einn af stofnendum Norðursiglingar á Húsavík.

Hörður lét í það skína að fámennið og náttúrufegurð veiti Íslendingum sérstöðu varðandi markaðssetningu í ferðaþjónustu.

Hörður Sigurbjarnarson

Hann fer heldur ekki leynt með þá skoðun sína að ferðaþjónustan hafi vaxið heldur hratt á landsvísu en vonar að fólk hafi lært að náttúran er auðlindin sem þetta byggist allt á og hana beri að vernda. „Ég vænti þess að menn fari varlega af stað og hugi að náttúrunni og vaði ekki um allt eins og vitleysingar, með allt á útopnu. Menn verða að taka tillit til þessarar nýju stöðu sem er í loftslagsmálum jarðarinnar,“ segir Hörður en minnir á að gestir til Íslands voru á þriðju milljón árið 2017. „Stór hluti af því fólki átti ekkert erindi nema bara í Bláa lónið, Reykjavík og Gullhringinn.

„Styrkur okkar hér á svæðinu sýndi sig þegar Wow fór á hausinn. Þá fækkaði ekki farþegum hjá okkur hér í Þingeyjasýslu. Það er magnað og segir okkur það að þegar ferðaþjónustan fer að rísa á ný þá erum við með möguleika á að vera í efri kantinum í greininni. Hér getum við boðið fólki að skoða og fá upplifun sem ekki er víða að fá,“ útskýrir Hörður.

Lengi hefur það verið helsta vandamál Húsavíkur og nærsveita að ferðamenn stoppa ekki lengi á svæðinu. Hörður segir að því verði ekki breytt nema fólk sjái ástæðu til að stoppa hér lengur. „Það sem hefur gerst á undanförnum árum eftir að Íslandshótel eru komin með mjög fínt uppgert hótel í góðum klassa og annað í Mývatnssveit. Síðan með öllum þessum nýju vegum, Dettifosshringurinn,  Þeistareykir og Hólasandur. Þetta er að verða prógram sem fólk getur tekið frá sama gististað í 5-7 daga. Það er bara leikur einn,“ segir Hörður.


Athugasemdir

Nýjast