Námskeið fyrir þá sem vilja fá sér landsnámshænur

Landnámshænur er að finna á Oddeyri á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Landnámshænur er að finna á Oddeyri á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Símey býður upp á nokkur námskeið í næstu viku og þar á meðal er námskeið fyrir þá sem langar að láta drauminn rætast og fá sér landnámshænur í garðinn. Leiðbeinandi er Sigurvin Jónsson en sjálfur er hann með landsnámshænur í bakgarðinum heima hjá sér á Oddeyri á Akureyri. Sigurvin mun fara yfir það hvað þurfi að gera, hvað þurfi að varast og hvernig hægt er að láta hænunum líða sem best, svo eitthvað sé nefnt.

Námskeiðið er í máli og myndum þar sem farið verður yfir allt sem máli skiptir varðandi þetta umhverfisvæna áhugamál. Hægt verður aðleggja inn pantanir á ungum í námskeiðslok. Námskeiðið verður haldið þriðjudagskvöldið 1. nóvember og stendur í tvo tíma. Aðgangur er ókeypis. Fyrir þá sem eru farnir að ná tökum á ljósmyndatækninni verður boðið upp á námskeiðið; Skapandi ljósmyndun. Kynntar verða hinar ýmsu tegundir ljósmynda, farið yfir hina ýmsu stíla í ljósmyndun og margt sniðugt prófað, bæði í kennslustofu og utandyra. Einnig verður farið í ýmsa þætti myndvinnslu í photoshop. Leiðbeinandi er Helga Kvam. Þá verður boðið upp á tölvunámskeið fyrir eldri borgara. Fyrst verður tölvan kynnt t.d. lyklaborð og mús. Svo verður Internetið kennt. Vefurinn verður skoðaður og þar verða t.d. helstu fréttavefir lesnir. Kennt verður hvernig hægt er að lesa gömul blöð ásamt ýmsu öðru áhugaverðu efni. Á eftir vefnum verður kennt hvernig tölvupóstur virkar en með þessari einföldu samskiptaleið er hægt að vera í sambandi við vini og ættingja hvar sem er í heiminum.

Mismunandi menningarheimar -  mismunandi þjónusta?, er yfirskrift á námskeiði SAF í samstarfi við Gerum betur. Þar verður farið yfir mikilvæga þætti með tillititil samskipta og þjónustu með áherslu á þær þjóðir sem sækja Ísland hvað mest heim. Markmiðið með námskeiðinu er að: Læra að þekkja ólíkar þarfir og væntingar viðskiptavina. 
Efla skilning á mismunandi menningarheimum til að auka sjálfstraustþjónustuveitanda. 
Bæta þjónustugæði með aukinni fagmennsku. Fyrirlesari: Áslaug Briem, B.S. gráðu í ferðamálafræði og MS. Gráðu í markaðsfræði- og alþjóðaviðskiptum. Meistararitgerð hennar „Þjónustugæði í íslenskri ferðaþjónustu og áhrif mismunandi menningar í þjónustu“ hlaut verðlaun SAF og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála vorið 2011. Nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna á vef Símeyjar.

 



Nýjast