Sjónvarpsstöðin N4 á Akureyri hefur fengið styrk frá verkefnasjóði NORA, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina, til að koma á fót samstarfi um gerð sjónvarpsþáttanna Á norðurslóðum - I norden, frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Norður-Noregi með það að markmiði að kynna líf, menningu, lífshætti og störf á norðurslóðum og miðla því á frummáli á alþjóðlegum vettvangi. Verkefnisstjóri er María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri N4 en ritstjórn skipa fulltrúar sjónvarpsstöðva og fréttamiðla á þessum slóðum sem leggja til innslög í þáttinn. Í tilkynningu frá N4 segir að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkri samvinnu er hrundið af stað í þessum löndum með þessum hætti en fyrirmyndin er sótt í þáttinn Að norðan sem hefur verið á dagskrá N4 frá upphafi útsendinga. Undirbúningur er þegar hafinn og vonir standa til að fyrstu þættirnir verði tilbúnir til sýningar í haust. Umfjöllunarefnið er ákveðið á hverjum stað fyrir sig en áhersla verður lögð á fjölbreytileika, fróðleik, lífshætti. Þó löndin séu landfræðilega nálægt hvert öðru og hafi margra sameiginlegra hagsmuna að gæta, er þekking íbúa innan Nora svæðisins takmörkuð, að ekki sé talað um utan þess. Tungumál svæðanna heyrast ekki oft, þar sem meginþorri fjölmiðlaefnis er á ensku og því er þetta leið til að leyfa þeim að hljóma víðar en í sínu heimalandi.
Samvinna mikilvæg
„Með aukinni alþjóðavæðingu eykst mikilvægi þess að þessar fámennu nágrannaþjóðir vinni saman. Þetta á sérstaklega við um Nora löndin, sem eru á jaðarsvæði. Til að viðhalda áhuga þjóðanna hver á annarri þarf aðgengilegt efni með upplýsingum um það sem fram fer á Norðurlöndunum. Vesturhluti Norðurlandanna, þ.e.a.s. Strand(Norður)-Noregur, Ísland, Grænland og Færeyjar, á það til að gleymast þegar talað er um Norrænt samstarf og enda fjölmiðlum víðast stjórnað frá fjölmennari svæðum. Stórir miðlar draga gjarnan upp einfaldaða mynd af litlum byggðalögum. Þetta hefur til dæmis háð Grænlandi, þar sem danskir miðlar flytja einhliða fréttir frá grænlensku samfélagi. Litlum staðarmiðlum fækkar mjög, sem þýðir að þessi skekkja eykst. Það er ekki síst vegna þessa sem N4 ríður á vaðið með þetta verkefni enda eini ljósvakamiðillinn á Íslandi með höfuðstöðvar utan Reykjavíkur og með aðal áherslu á miðlun efnis af landsbyggðunum,“ segir í tilkynningu.
Norðurlöndin kynnt
Tilgangur Norrænnar samvinnu er annars vegar að kynna Norðurlöndin sem góðan valkost þegar kemur að búsetu, starfi og fyrirtækjarekstri og hins vegar að styrkja stöðu Norðurlanda á alþjóðavísu. Þetta gera löndin í gegnum samstarf á ýmsum sviðum, t.d. í umhverfis-, velferðar- og menningarmálum. Hið formlega Norræna samstarf á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1952 og byggir á sameiginlegu gildismati þjóðanna sem byggja þessi lönd.