Myndavélar hafi eftirlit með hraðakstri á Akureyri

Jóhannes G. Bjarnason bæjarfulltrúi Framsóknarflokks hefur lagt til að Akureyrarbær hafi frumkvæði að því að keyptar verði nokkrar myndavélar til að hafa eftirlit með hraðakstri í bænum.  Hann segir alltof mikið um að bílum sé ekið of hratt innanbæjar og hvetur ökumenn til að draga úr hraðanum.  

„Ég hef margoft orðið vitni að hreinum glæfraakstri um götur bæjarins," segir hann og bendir m.a. á Þingvallastræti í því sambandi, en yfir þá götu hafi hann gott útsýni heiman frá sér.  Upphafið að því að hann tók upp umræðu um umferðarhraða innan bæjarkerfisins segir hann þó vera þá, að mæður ungra barna hafi komið að máli við sig og bent á að vegna mikils hraða á sumum götum, væru þær ragar við að senda börn sín ein gangandi í skóla.  „Menn hafa margoft orðið varir við kappakstur á götum bæjarins, en slíkt á ekki að líðast," segir Jóhannes.  Hann segir lögreglu ekki hafa yfir nægum fjármunum að ráða til að geta fylgst vel með umferðarhraða og ekki sé á niðurskurðartímum að vænta að breyting verði þar á.  Þá hafi lögregla í nógu öðru að snúast og geti ekki setið langtímum saman við hraðamælingar.

Jóhannes hefur því lagt til að bærinn beiti sér fyrir því að keyptar verði nokkar færanlegar myndavélar, en reynsla af þeim sé góð.  Það taki ekki langan tíma fyrir ökumenn sem fari of greitt að átta sig eftir að þær hafa verið teknar í gagnið.  „Þessar myndavélar hafa mikil áhrif í þá átt að ná niður hraða, reynsla annarra hefur sannað það," segir Jóhannes. Hann segir vélar af þessu tagi ekki mjög dýrar, þannig hafi færanleg eftirlitsmyndavél sem sett var upp í miðbænum á sínum tíma kostað eitthvað örlítið á aðra milljón króna.

Nýjast