Þeir sem eingöngu hafa lokið styttra námi, þ.e. grunnmenntun, eru tæplega 86 þúsund talsins. Það eru 39% íbúa og hefur fækkað úr 42% árið 2003. Mikill munur er á menntun íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Á höfuðborgarsvæðinu hafa 33% íbúa eingöngu lokið grunnmenntun en 30% hafa lokið háskólamenntun. Utan höfuðborgarsvæðisins hafa 49% íbúa aðeins lokið grunnmenntun og 16% lokið háskólamenntun. Yngri konur eru mun líklegri til að hafa lokið háskólanámi en yngri karlar. Rúmlega 41% 25-29 ára kvenna hafa lokið háskólamenntun en tæplega 23% karla á sama aldri. Að sama skapi hafa færri yngri konur en karlar eingöngu lokið grunnmenntun. Í elstu aldursflokkunum snýst dæmið hins vegar við og þar er hlutfall kvenna sem hefur aðeins lokið grunnmenntun mun hærra en hlutfall karla. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.