Mótmælir árásum formanns sambands sveitarfélaga á grunnskóla

Stjórn Kennarasambands Íslands mótmælir linnulausum árásum formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga á grunnskóla á Íslandi. Niðurskurður á námi nemenda sem nemur allt að fimm vikum á ári kemur niður á menntun barna okkar - öfugt við það sem fram kom í viðtali við formann sambands sveitarfélaga. Staðhæfingar um annað  sýna virðingarleysi fyrir námi barna og starfi kennara. Að halda slíku fram sýnir enn fremur vanþekkingu á uppbyggingu skólastarfs á Íslandi.  

Svokölluð 3-4-5 leið myndi stytta skólagöngu barna á yngsta stigi um tæpar fjórar vikur á ári, á miðstigi um rúmar fjórar vikur og á elsta stigi um fimm vikur. Ekki verður hægt að bæta þessum nemendum skerðinguna þótt síðar verði horfið frá henni. Því mun tiltekinn hópur barna í íslensku samfélagi hljóta minni menntun en önnur börn. Slík skerðing á námi er skaði sem verður ekki auðveldlega bættur, segir í fréttatilkynningu frá Kennarasambandinu.

Íslendingar geta lært það af öðrum þjóðum sem lent hafa í efnahagslegum þrengingum að það boðar ekki gott að skerða nám barna og unglinga. Slíkt hefur alvarleg áhrif á  börnin og allt samfélagið þegar fram líða stundir. Sterk efnahagsleg rök hníga að því að skerða alls ekki skólagöngu barna og ungmenna heldur auka við hana á krepputímum ef þess er nokkur kostur. Menntamálaráðherra er þetta ljóst og hefur staðið dyggilega vörð um menntun barna í grunnskólum þrátt fyrir tímabundnar þrengingar og að hart sé að henni sótt af sveitarfélögum.

Sveitarstjórnarmenn ætla greinilega ekki  að standa vörð um grunnþjónustu og störf. Nú er ljóst að sveitarfélög, ólíkt fólkinu í landinu, telja grunnskóla ekki til grunnþjónustu sem beri að standa vörð um. Kennarasamband Íslands hafnar sem fyrr öllum leiðum sem skerða gæði skólastarfs  og vega að námi barna okkar. Kennarasambandið hvetur menntamálaráðherra til hvika hvergi frá stefnu sinni í málefnum grunnskólans heldur  verja hann í lengstu lög og skipa sér þannig fremst í röð þeirra sem standa vörð um nám barna á Íslandi.

Þegar rýnt er í tölur frá OECD (Education at a Glance 2010) má sjá helstu þætti  sem skýra kostnað við grunnskóla á Íslandi umfram mörg samanburðarlönd.

  • Í fyrsta lagi er þjóðin ung og hlutfall grunnskólanemenda hér er hærra en víðast annars staðar.
  • Í öðru lagi höfum við sem þjóð kosið að byggja upp sambærilega menntun um allt land fyrir alla nemendur, óháð búsetu. Það getur verið dýrt að halda úti litlum einingum víða um land.
  • Í þriðja lagi hefur það verið stefna sveitarfélaga að blanda sem mest nemendum með ólíkan bakgrunn saman í skólastarfinu.Þaðsem að ofan er nefnt skýrir að stærstum hluta meiri kostnað við grunnskólann á Íslandi miðað við samanburðarlönd, segir ennfremur í fréttatilkynningu.

Nýjast