Mótastjóri KSÍ: Engin ósk um að leiknum yrði frestað

„Stutta skýringin er sú að fyrst að Þórsararnir voru komnir á svæðið að þá bar okkur skylda að athuga hvort hægt væri að leika. Dómarinn kannaði vilja beggja félaga og báðir þjálfararnir vildu spila,” segir Birkir Sveinsson mótastjóri hjá KSÍ. Það vakti athygli í gær að öllum leikjum Pepsi-deildar karla, að undanskildum leik Vals og Þórs á Hlíðarenda, var frestað. Birkir segist hafa fengið símtal frá fulltrúa Þórs er liðið var á flugvellinum fyrir norðan og hann spurður hvort leikurinn færi fram.

 

„Þá hafði ég engar aðrar upplýsingar annað en að það væri vel leikhæft og allir leikirnir færu fram. Hitt fer svo ekki að rúlla af stað fyrr en Þórsarar eru að lenda hér fyrir sunnan og ég fæ fyrstu hringinguna þar sem óskað er eftir að leik verði frestað. Það verður svo úr að fresta hinum leikjunum en tekin ákvörðun um að láta reyna á að leika á Vodafonevellinum fyrst að Þórsararnir voru mættir á svæðið,” segir Birkir.

Um hvort þetta mál sé eitt stórt klúður hjá KSÍ segir Birkir: „Það verða aðrir að dæma um það. Það voru tvö lið komin sem vildu spila. Það var hægt að láta leikinn fara fram og engin ósk barst frá félögunum um annað fyrr en formaður Vals fer að hafa áhyggjur af aðsókn á leikinn. En þá eru liðin komin í upphitun og ekki aftur snúið."

Nýjast