Móta áætlun um að skipta út dekkjakurli

Æfing á gervigrasvellinum á Húsavík. Mynd: Völsungur
Æfing á gervigrasvellinum á Húsavík. Mynd: Völsungur

Talsverð umræða hefur spunnist undanfarna mánuði um notkun kurlaðs dekkjagúmmís á íþróttavöllum og Vikudagur.is hefur fjallað um þessi mál bæði hvað varðar gervigrasvelli á akureyri og í Norðurþingi. Mikið hefur verið rætt um heilsufarslega skaðsemi kurlsins og mikill þrýstingur hefur verið á ráðamönnum um að bregðast við.

Frétt Vikudags.is: Dekkjakurli ekki skipt út af sparkvöllum í ár

Umhverfisstofnun sendi tilmæli frá sér þann 12. júlí sl. þar sem kom fram að „þó að rannsóknir hafi ekki sýnt fram á að notkun dekkjakurls valdi heilsufarslegum skaða beinir Umhverfisstofnun því til aðila sem bera ábyrgð á gervigrasvöllum, að við endurnýjun vallanna eða við byggingu nýrra valla verði notaðar aðrar lausnir.“

Sumarið 2016 samþykkti svo Alþingi þingsályktunartillögu um notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum, þar sem Alþingi fól umhverfis- og auðlindaráðherra, í samstarfi við Umhverfisstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga „að móta áætlun sem miði að því að kurluðu dekkjagúmmíi verði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það er nú að finna“. Því verki verði lokið fyrir árslok 2016.

Frétt Vikudags.is: Kurlið burt fyrir áramót

Æskulýðs - og menningarnefnd Norðurþings hefur nú fjallað um málið. Farið var yfir ástandsskýrslu gervigrasvalla sveitarfélagsins sem unnin var af íþrótta - og tómstundafulltrúa.

Niðurstöðum úr þeirri samantekt hefur nú verið vísað til framkvæmdanefndar Norðurþing Þar sem mótuð verður áætlun um það hvenær skipta eigi gúmmíkurlinu út fyrir hættuminna efni. Stefnt er að því að þeirri áætlunargerð verði lokið fyrir árslok 2016 og henni síðan áleiðis til Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Nýjast