Mörg krefjandi en spennandi verkefni framundan
Starfið leggst mjög vel í mig. Eins og gengur og gerist með umfangsmikið starf þá bíða mörg krefjandi en spennandi verkefni. Á deildinni stafar áhugasamur og metnaðarfullur hópur fólks sem ég hlakka til að starfa með. Akureyrarbær veitir framsækna félagsþjónustu og það er ánægjuleg áskorun að fá tækifæri til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og þróun hennar," segir Soffía Lárusdóttir sem nýlega tók við starfi framkvæmdastjóra Búsetudeildar Akureyrarbæjar.
Búsetudeild er hluti af félagsþjónustu Akureyrarbæjar og veitir íbúum bæjarins ýmiss konar búsetuþjónustu. Ennfremur sinnir deildin þjónustu við íbúa nokkurra annarra sveitarfélaga samkvæmt samningum þar að lútandi. Með búsetuþjónustu er átt við þjónustu sem miðar að því að styðja við sjálfstæða búsetu fólks og/eða skapa fólki aðstæður til að lifa sem eðlilegustu lífi á heimili sínu þrátt fyrir skerðingu á færni og breytingu á högum sem kunna að verða samfara hækkandi aldri, fötlun eða veikindum.
Skrifstofa deildarinnar annast yfirstjórn, áætlanagerð og starfsmannahald fyrir einstaka þjónustuþætti. Undir deildina heyrir einnig heimaþjónusta Akureyrarbæjar, búseta með þjónustu fyrir fatlað fólk, skammtímavistun fyrir fatlað fólk, ráðgjöf iðjuþjálfa, tómstundastarf aldraðra, dagþjónusta aldraðra í Þjónustumiðstöðinni Víðilundi og Buðgusíðu, þjónustuhópur aldraðra og heilsueflandi heimsóknir til aldraðra, auk félagslegrar liðveilsu við fatlað fólk.
Soffía er með B.A. próf í þroskaþjálfafræðum og hefur að auki lokið diplómanámi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Þá hóf hún í byrjun þessa árs diplómanám í menntunarfræðum á Hug- og félagsvísindasviði við Háskólann á Akureyri og hefur lokið hluta þess, 40 ECTS af 60 ECTS en frestaði náminu til að taka við nýju starfi.
Soffía bjó á Egilsstöðum í 25 ár en flutti til Akureyrar í upphafi þessa árs. Lengst af starfaði hún sem framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi eða þar til starfið var lagt niður um síðustu áramót vegna tilfærslu málaflokks fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Áður starfaði hún á stofnunum fyrir fatlað fólk í Mosfellsbæ, Kópavogi, á Akureyri og í Noregi.
Ég hef tekið þátt í norrænu samstarfi sem tengist mínu starfi í meira en áratug og þá tók ég þátt í sveitarstjórnarmálum fyrir austan á árunum 1998 til 2010," segir Soffía, en hún var m.a. formaður bæjarráðs Austur-Héraðs í fjögur ár og forseti bæjarstjórnar í 8 ára, fyrst Austur-Héraðs og síðar Fljótsdalshéraðs eftir sameiningu þriggja sveitarfélaga á héraði. Þá sat hún í ótal nefndum fyrir sveitarfélagið og starfaði m.a. að sameiningarmálum sveitarfélaga og var formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á árunum 2003 - 2006 auk fleiri starfa, en einnig gengdi hún trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn um árabil. Eiginmaður Soffíu er Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari og eiga þau samtals fimm börn og 10 barnabörn.