KA/Þór tekur á móti sterku liði HK í KA-heimilinu í dag kl. 16:00 í N1-deild kvenna í handknattleik. Ásamt ÍBV hefur HK komið mest liða á óvart í deildinni í vetur og situr í þriðja sæti með tólf stig en KA/Þór hefur tvö stig í næstneðsta sæti. Þegar liðin mættust í október í Kópavogi hafði HK betur, 30-19, og ljóst að norðanliðið þarf að eiga toppleik í dag til að ná fram hagstæðum úrslitum. Verkefnið er verðugt þar sem við erum að fara að mæta liði sem hefur verið að spila vel í vetur, segir Guðlaugur Arnarsson þjálfari KA/Þórs. Okkar möguleikar eru hins vegar klárlega til staðar. Við þurfum að fara að ná góðum heilum leik og takist það í dag getum við náð hagstæðum úrslitum.
KA/Þór er aðeins tveimur stigum frá sæti í úrslitakeppninni, þrátt fyrir þá staðreynd að liðið hefur aðeins unnið einn leik í vetur en tapað sjö. Við ætlum að leggja allt í sölurnar til að komast í úrslitakeppnina og við byrjum í dag, segir Guðlaugur.