Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, tók í gær þátt í ráðstefnu í Brussel á vegum framkvæmdastjórnar ESB og Jarðvarmaráðs Evrópu (European Geothermal Energy Council) um leiðir til að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa í húshitun í Evrópu. Ráðstefnan var hluti af orkuviku ESB (EU Sustainable Energy Week) sem nú stendur yfir í Brussel.
Í ávarpi ráðherra fór hún yfir reynslu Íslands af notkun jarðvarma á undanförnum áratugum og þann efnahagslega, umhverfislega og félagslega ábata sem hann hefur haft í för með sér, með áherslu á hitaveituvæðingu Íslands. Ráðherra fór einnig yfir þá möguleika sem eru til staðar í Evrópu á sviði jarðvarmanýtingar og hvaða lærdóm megi draga af reynslu og þekkingu Íslands. Í því skyni vakti ráðherra m.a. athygli á þeim tækifærum sem felast í Uppbyggingarsjóði EES að því er varðar samstarfsverkefni um jarðvarmanýtingu í Evrópu.
Að lokinni ráðstefnunni heimsótti ráðherra skrifstofur Uppbyggingasjóðsins og fundaði með framkvæmdastjórn hans þar sem farið var yfir starfsemi sjóðsins og áætlanir til ársins 2021.