Mögulegt efnisnám í eða við Eyjafjarðará um 490.000 m3

Á grundvelli rannsókna á botngerð og lífríki Eyjafjarðarár ásamt þverám og greiningu gagna og heimilda er ánni tengjast hafa verið gerðar tillögur er varða mögulegt efnisnám í eða við Eyjafjarðará og hliðarár hennar. Alls er um níu efnistökusvæði að ræða og er áætlað að þar sé hægt að taka samtals um 490.000 rúmmetra af efni.    

Þetta kemur fram í skilagrein um möguleg efnistökusvæði á aðalskipulagi innan vatnasvæðis Eyjafjarðarár og unnin var af Bjarna Jónssyni og Eik Elfarsdóttur hjá Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar. Til grundvallar tillögunum eru lagðar þær forsendur að hugsanlegt efnisnám á tilgreindum stöðum sé hverju sinni háð skilyrðum, umsögnum og leyfisveitingum frá viðeigandi aðilum. Þá er gert ráð fyrir því að meta þurfi á nokkurra ára fresti hvort forsendur þeirra tillagna sem hér eru lagðar fram hafi breyst, svo sem vegna ástands lífríkis eða farvegsbreytinga í Eyjafjarðará og hliðarám hennar.

1. Áreyrar við Torfufellsá

Gert verði ráð fyrir því í aðalskipulagi að hægt verði að taka allt að 50,000m3 af efni úr áreyrum við Torfufellsá en sjálfur farvegur árinnar sé þar undanskilinn.

2. Neðan Vatnsenda

Miðað verði við að taka megi efni úr áreyrum við hlið árinnar að vestanverðu neðan Vatnsenda allt að 40,000m3.

3. Áreyrar neðan Skáldstaða

Talsverðar áreyrar eru austan Eyjafjarðarár nokkru neðan Skáldstaða. Miðað er við að á því svæði við hlið núverandi árfarvegs verði gert ráð fyrir mögulegu efnisnámi allt að 50,000m3.

4. Við Arnarstaði

Við Arnarstaði eru miklar malareyrar vestan árinnar og árfarvegur óstöðugur. Einnig er mikið landbrot að vestanverðu. Lagt er til að úr þessum malareyrum megi taka allt að 50,000m3 af efni og slík framkvæmd verði tengd aðgerðum til varnar landbroti.

5. Áreyrar við Skjóldals- og Finnastaðaá

Skjóldalsá og Finnastaðaá renna um miklar malareyrar áður en þær sameinast og falla í Eyjafjarðará. Lagt er til að heimilað verði að taka efni á þremur stöðum á þessum malareyrum, samanlagt allt að 70,000m3.

6. Neðan Bringu

Eyjafjarðará sveigir hjá malareyri á móts við bæinn Bringu. Gerð er tillaga um að taka megi allt að 30,000m3 af efni úr þeirri malareyri án þess að fara í sjálft árfarið.

7. Áreyrar á kaflanum frá Hrafnagili að Teigi

Mikið hefur dregið úr halla í Eyjafjarðará þegar kemur niður að Hrafnagili. Á þeim kafla og niður undir Teig hleður áin undir sig sandeyrum. Gerð er tillaga um að á þessum árkafla verði heimilt að taka efni úr sandeyrum á fjórum stöðum, þremur við vestari bakka og einum við austari bakka árinnar. Líta ber á þennan árkafla sem eitt svæði með tilliti til náttúrulegra efnisflutninga árinnar, þar sem efnisnám á einum stað hefur áhrif á efnisflutninga á stærra svæði. Því er lagt til að samanlögð efnistaka á árkaflanum frá Hrafnagili að Teigi nemi að hámarki 50,000m3 á hverju tveggja ára tímabili og verði bundin við fjóra staði. Metið verði eftir aðstæðum á hverjum tíma hvenær og hve mikið efni verði leyfilegt að taka á hverjum þessarra fjögurra staða. Hvergi verði mokað dýpra en 1,5 m í áreyrar við efnistöku og grynnra ef aðstæður þykja gefa tilefni til af hálfu umsagnaraðila og leyfisveitenda.

8. Austurkvísl við Staðarey

Eyjafjarðará hefur hlaðið miklu efni í Austurkvísl við Staðarey. Rennur áin nú að mestu leiti vestan Staðareyjar. Lagt er til að gert verði ráð fyrir efnistöku í Austurkvísl allt að 100,000m3. Miðað verði við að ekki verði farið dýpra í farveg kvíslarinnar en 1 m.

9. Ósasvæði Eyjafjarðarár

Ósasvæði Eyjafjarðarár er skilgreint sem eitt svæði með tilliti til áhrifa efnistöku. Lagt er til að heimiluð verði efnistaka austanmegin á ósasvæðinu allt að 50,000m3 samanlagt á hverju tveggja ára tímabili. Efnistökustöðum á því svæði sem efnistaka verði heimil á verði hliðrað til eftir því sem aðstæður og ástæður þykja gefa tilefni til af hálfu umsagnar- og leyfisveitenda hverju sinni.

Nýjast