Mjólkurbíll í eigu MS-Akureyri rann stjórnlaust 2 til 3 metra niður brekku og hafnaði á fjósi við bæinn Akur í Eyjafjarðarsveit í vikunni. Bílstjórann sakaði ekki, en töluvert tjón varð á bílnum sem er nýr, var tekin í notkun fyrir tæpum tveimur mánuðum. Eins urðu nokkrar skemmdir á fjósinu. Pétur Haraldsson mjólkurbílsstjóri var á ferðinni að sækja mjólk á bæi í Eyjafjarðarsveit í vikunni þegar óhappið varð.
Hann segir að aðstæður hafi verið þannig að glærasvell var á heimreiðinni en snjór ofan á því. Mjólkurbílinn var á keðjum en þær náðun ekki niður í gegn og því fór sem fór. Bratt er niður að fjósinu og hliðarhalli á veginum. Pétur segir að hált hafi verið síðastliðna daga, en aðstæður mismunandi á milli bæja, sumir séu duglegir að sanda sínar heimreiðar, en aðrir geri það sjaldnar. Bændur þurfa sjálfir að sjá um hálkuvarnir á heimreiðum sínum. Nokkrir aðilar í Eyjafjarðarsveit bjóða slíka þjónustu en flestir bændur eiga tæki og tól til að sinna verkinu sjálfir.
Pétur segir þjónustu Vegagerðarinnar sem sjái um þjóðveginn ekki nægilega góða þegar kemur að útvegum. Almennt sé góð færð á fjölförnustu leiðinni, á litla Eyjafjarðarhringnum svonefnda, en þegar út fyrir hann er komið sé annað uppi á teningnum. Þeir vegakaflar sitja á hakanum og það þykir mér ekki eðlilegt því það borga allir sömu gjöldin en fá mismunandi þjónustu, segir Pétur. Hann segir að Vegagerðin beri við sparnaði þegar kvartað sé yfir lélegri þjónustu á útvegum, en að hans mati hefur þjónustunni hrakað mjög á árunum eftir hrun. Það eigi bæði við um sumar- og vetrarþjónustu á vegum.