„Minnsta kosti þrjú ár í viðbót”

Útvarpsstöðin Voice fagnar um þessar mundir þriggja ára starfsafmæli sínu. Það var þann 9. júní árið 2006 sem útvarpsstöðin fór fyrst í loftið. Stöðin sendir út um allan Eyjafjörð, á Dalvík og í Grýtubakkarhreppi á tveimur tíðnum, FM 98.7 og FM 95.1.  Um áramótin var svo settur upp sendir í Hrísey, sem hefur vakið mikla lukku fyrir fólkið á þeim bænum. Sigurður Gunnarsson, dagskrágerðarmaður á Voice, segir reksturinn ganga ágætlega, en stöðin lifir eingöngu á auglýsingatekjum. „Þetta gengur, gengur ekkert meira en það. Það er nú bara þannig ástand í þjóðfélaginu, en við höfum náð að reka stöðina í þrjú ár og haldið uppi útvarpi allan sólarhringinn. Hér er dagskrá frá morgni til kvölds og það er rosalega mikið af góðu fólki í kringum okkur sem kemur að stöðinni.” Sigurður segir mikla bjartsýni vera hjá þeim félögum á útvarpsstöðinni fyrir komandi framtíð, þrátt fyrir allt bölsýni og krepputal. „Við erum rosalega bjartsýnir og þetta verður að minnsta kosti í þrjú ár í viðbót,” segir Sigurður.

Nýjast