Að minnsta kosti tíu stjórnmálaflokkar ætla sér að bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga á Akureyri næsta vor. Viðreisn og Píratar koma nýir inn og er vinna hafin við að finna fólk á lista. Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin stefna einnig á framboð í bænum. Forysta Dögunar hefur ekki ákveðið hvort flokkurinn bjóði fram aftur eftir bágt gengi í síðustu alþingiskosningum.
Frá þessu var greint á vef Rúv.
Sex flokkar eiga nú fulltrúa í bæjarráði Akureyrar; Björt framtíð, Framsóknarflokkur, L-listinn, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn. Allir ætla að bjóða fram á ný í komandi sveitarstjórnarkosningum en ekki hafa allir bæjarfulltrúar ákveðið hvort þeir gefi kost á sér á ný samkvæmt frétt Rúv.
Sveitarstjórnarkosningar fara fram þann 26. maí 2018.