Minnka matarsóun og rétta þeim sem minna mega sín hjálparhönd

Bergrún Ósk Ólafsdóttir verslunarstjóri hjá Hertex og tengiliður vegna verkefnis sem Hjálpræðisherin…
Bergrún Ósk Ólafsdóttir verslunarstjóri hjá Hertex og tengiliður vegna verkefnis sem Hjálpræðisherinn, Akureyrarbær og Vistorka hafa ýtt úr vör með það að markmiði að þeir sem standa í veitingarekstri af öllu tagi eru hvattir til að gefa áfram þann mat sem eftir verður t.d. eftir stórar veislur eða sölu dagsins. Alls hafa 36 veitingastaðir, matvælaframleiðendur, veisluhaldarar, bakarí og verslanir á Akureyri skráð sig til þátttöku í verkefninu. Mynd/MÞÞ

„Það er virkilega gaman og gefandi að taka þátt í þessu stóra og þarfa verkefni,“segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir verslunarstjóri hjá Hertex og tengiliður vegna verkefnis sem Hjálpræðisherinn, Akureyrarbær og Vistorka hafa ýtt úr vör. Markmið þess er að hvetja þá sem standa í veitingarekstri af öllu tagi til að gefa áfram þann mat sem eftir verður t.d. eftir stórar veislur eða sölu dagsins. Alls hafa þegar 36 veitingastaðir, matvælaframleiðendur, veisluhaldarar, bakarí og verslanir á Akureyri boðað þátttöku sína í verkefninu.

Bergrún segir að dreifing muni fari fram frá nýju og glæsilegu húsnæði Hjálpræðishersins við Hrísalund, en þar hefur verið sett upp svonefnt Velferðarherbergi og munu þeir sem koma með matvæli frá þátttökufyrirtækjum fá aðgang að því rými þannig að þeir geti komið mat sínum fyrir. Þar er þegar búið að setja upp kæli- og frystiskápa, en þeim sem setja matvæli í skápana er gert að fylla út eyðiblað þar sem meðal annars kemur fram dagsetning, þ.e.hvenær maturinn var eldaður og annað slíkt þannig að nýting verði sem best.  „Við munum svo í samvinnu við sjálfboðaliða okkar raða í matarbakka sem verða tilbúnir til þeirra sem á þurfa að halda,“ segir Bergrún.

Náunginn, umhverfið og loftslagsmálin

Allir matarbakkar verða úr efni sem brotnar niður  og mega fara í tunnu fyrir moltu, en Bergrún segir það skipta verulegu máli í þessu verkefni þar sem samvinna þeirra sem þátt taka miðast að því að hlúa að því sem mestu máli skipti; Náunganum, umhverfinu og loftslagsmálunum. Hún segir að þegar séu komin í hús um 250 matarbakka en þeir fengust með styrkjum sem barst verkefninu. „Eitt af markmiðum verkefnisins er að draga úr matarsóun og styðja í leiðinni við þá sem mest þurfa á aðstoð að halda,“ segir Bergrún, en fyrri reynsla af því að deila út þeim matvælum sem verða eftir þegar sölu dagsins á veitingahúsum líkur er sú að þörfin er brýn. Allt sem í boði er hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Frumraun sem við hlökkum til að takast á við

„Við erum hér að vinna að mikilvægu samfélagsverkefni og það taka margir þátt í því,“ segir hún og nefnir m.a. fyrirtækin Terra, Moltu og Geimstofuna sem styðja framtakið, m.a. með því að koma matarafgöngum sem ekki tekst að útdeila rétta leið í jarðgerð og eins með hönnun og prentun auglýsinga og leiðbeiningaskjala til matvælaframleiðenda.

„Þetta er frumraun hjá okkur og við hlökkum mikið til að taka til starfa á þessum mikilvæga vettvangi. Ég er sannfærð um að þetta verkefni á eftir að vaxa og blómstra og verður öllum til hagsbóta.  Við höfum hjartað á réttum stað, við erum hjálpræðisherinn,“ segir Bergrún. Verið er að setja upp eldhús, koma fyrir tækjum og búnaði í eldhúsi Hersins á Akureyri og segir hún að starfsemin verði komin á fullan skrið innan skamms.

MÞÞ


Nýjast