Minningarbók um þá Norðmenn sem létust í voðaverkunum á föstudag

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa komið fyrir minningarbók í þjónustuandyri Ráðhússins, til minningar um þá fjölmörgu Norðmenn sem létust í voðaverkunum sem framin voru í Olsó og Útey sl. föstudag. Þar geta bæjarbúar og gestir á Akureyri skrifað nafn sitt í bókina og vottað aðstandendum samúð sína. Það var Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar, sem var fyrstur til að rita nafn sitt í bókina fyrr í dag.  

Áður hafði bæjarstjórn sent samúðarskeyti til bæjaryfirvalda í Álasundi, sem er vinabær Akureyrar í Noregi. Geir Kristinn segist hafa fundið fyrir þörf hjá bæjarbúum til að votta Norðmönnum samúð sína og er minningarbókin viðbrögð við því. Bókin verður í þjónustuandyrinu til 5. ágúst en það er opið milli kl. 8 og 16. Í framhaldinu verður bókin afhent sendiherra Noregs á Íslandi.

Nýjast