Minnihlutinn sat hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar á þriðjudaginn var með sex atkvæðum meirihlutaflokkanna. Bæjarfulltrúar minnihlutans sátu hins vegar hjá í atkvæðagreiðslunni. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun við afgreiðsluna þar sem segir m.a.: „Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn getum ekki samþykkt fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun fyrir bæjarsjóð Akureyrar árin 2017-2020. Í áætluninni er gert ráð fyrir því að A-hluti bæjarsjóðs verði rekinn með halla að upphæð kr. 111.095.000 árið 2017. Það er í raun óásættanleg niðurstaða og hefði mátt leggja meiri vinnu í að ná hallalausum rekstri í A-hlutanum. 

Þá er í framkvæmdaáætlun ársins og næstu þriggja ára forgangsröðun verkefna sem við getum ekki fallist á. Þar má nefna framkvæmdir við Listasafnið sem við teljum vera úr takti við núverandi stöðu bæjarsjóðs, samgöngumiðstöð sem staðsetja á við Ráðhúsið og þá er gert ráð fyrir þátttöku Akureyrarbæjar í göngu- og hjólastíg að Hrafnagili að upphæð kr. 40.000.000 þegar ólokið er ýmsum mikilvægum framkvæmdum í bænum, auk þess sem ekkert liggur fyrir fast í hendi með kostnað eða þátttöku Vegagerðarinnar í slíkum stíg. 

Við höfum lagt áherslu á að dreifa framkvæmdum aðeins meira í takt við líklegan framkvæmdatíma s.s. aðstöðu fyrir Nökkva sem tekið hefur verið tillit til. Þá höfum við lagt áherslu á að gert verði ráð fyrir meiriháttar viðhaldi og breytingum á öldrunarheimilinu Hlíð, sem komið er inn í áætlun árið 2020 en við hefðum viljað fara í 2018. Þá ber að fagna því að lokið verður við framkvæmdir á lóð Naustaskóla, en við höfum áhyggjur af því að 60.000.000 kr. sem eru áætlaðar til framkvæmdanna dugi ekki til,“ segir í bókun.

Nýjast