Minnihlutinn krefst svara um aðgerðaáætlanir meirihlutans

Minnihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar vill skýr svör um aðgerðir meirihlutans.
Minnihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar vill skýr svör um aðgerðir meirihlutans.

Almennar umræður urðu um málefnasamning meirihlutans á Akureyri á öðrum bæjarstjórnarfundi nýrrar bæjarstjórnar í gær. Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins vilja fá svör um hvaða aðgerðir meirihlutinn hyggst fari varðandi ýmsa málaflokka eins og fræðslumál, þjónustu við aldraðra og húsnæðismál.

Minnihlutinn bókaði eftirfarandi:

„Málefnasamningur meirihlutans sem hér hefur verið til umræðu hefur þann galla að ekki er nokkur leið að lesa út úr honum hvað meirihlutinn hyggst fyrir á kjörtímabilinu og því fullkomlega óhæfur sem umræðugrundvöllur um stefnu og áherslur meirihlutans. Ef ætlunin er að láta hendur standa fram úr ermum á kjörtímabilinu óskum við eftir því að fyrirætlanir meirihlutans verði til umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar og til grundvallar umræðunni liggi spurningar þær sem við höfum lagt fram hér á fundinum og skrifleg svör meirihlutans við þeim. Skjal með spurningunum er lagt fram sem fylgiskjal við fundargerðina þar sem þær eru of margar til að rúmast í einni bókun. Sé ætlunin að komast í gegnum annað kjörtímabil án mikilla aðgerða er eðlilegt að horft sé framhjá þessari beiðni,“ segir í bókun minnihlutans.

Vill minnihlutinn m.a. fá svör við því hvaða fjölbreyttu leiðir séu hugsaðar til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, hvenær hækka eigi frístundastyrkinn í 50.000 kr., hvað sé ætlunin að gera til að uppbygging Akureyrarflugvallar verði að veruleika og að beinu millilandaflugi verði komið á, hvers konar þrýstingi er ætlunin að beita stjórnvöld til að tryggja raforkuflutninga inn á Eyjafjarðarsvæðið, hvernig tryggja eigi rekstur Öldrunarheimilanna og með hvaða aðgerðum verður stuðlað að fjölbreyttu framboði íbúðarhúsnæðis á almennum markaði og félagslegu leiguhúsnæði.

 

Nýjast