Minnihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar um fjárhagsáætlun Fjölga ætti félagslegum leiguíbúðum

Frá Akureyri  Mynd Vikublaðið
Frá Akureyri Mynd Vikublaðið

Fulltrúar minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar lögð fram bókanir við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun.

Fulltrúi Samfylkingar nefndi í sinni bókun að huga ætti betur að hagsmunum barnafjölskyldna, tekjulægri hópa og eldri borgara, fjölga félagslegum leiguíbúðum umfram það sem áætlað er og tryggja fleira fötluðu fólki húsnæði við hæfi. Þá þyrfti að rýmka sigrúm til sérstaks húsnæðisstuðning, en kjör þess hóps sem nýtur slíks stuðning hefðu rýrnað umtalsvert vegna aukinnar verðbólgu. Lækka ætti gjald fyrir forgangshópa í frístund grunnskóla og lækka kostnað foreldra við leikskólavist og fæði barna.

Framkvæmdir og skuldasöfnun á tímum verðbólgu

Fulltrúar Framsóknar og V-lista bókuðu sameiginlega að útlit hefði verið í fyrra fyrir að margvísleg umbótaverkefni myndu skila sjálfbærni í rekstri árið 2025, en ekki væri útlit fyrir að það myndi ganga eftir yrði fjárhagsáætlun samþykkt óbreytt. Fulltrúarnir bentu einnig á í bókun sinni að ráðast ætti í miklar framkvæmdir og aukna skuldasöfnun á tímum verðbólgu og þenslu, en ekki farið í að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu.

Þá nefndi fulltrúi V-lista að á tímum þar sem loftslagsvá væri stærsta áskorun samtímans væri eðlilegt að aukin áhersla væri lögð á að fjármagna aðgerðaráætlun nýsamþykktrar Umhverfis- og loftslagsstefnu. Einnig ætti að forgangsraða fjármunum til tekjulægri hópa og jafna aðstöðumun barna með sameiginlegum sjóðum.

 


Athugasemdir

Nýjast