Minni aðsókn að söfnum í sumar vegna veðurs
Veður virðist hafa sett strik sitt í reikninginn varðandi aðsókn að söfnum í Eyjafirði á liðnu sumri, færri ferðalangar voru á ferðinni og dró nokkuð úr gestakomum á söfn af þeim sökum. Þá hefur hækkandi verð á eldsneynti örugglega haft sitt að segja, veður var að jafnaði betra á suðvestanverðu landinu og þvi lögðu færri íbúar á því horni en oft áður leið sína um langan veg norður í land.
Þær veðurhörmungar sem gengu yfir Norðurlandið í maí og júní höfðu því miður veruleg áhrif á gestagang í söfnum sem eru innan vébanda Minjasafnsins á Akureyri, segir Haraldur Þór Egilsson safnsstjóri á Minjasafninu á Akureyri en innan vébanda þessu eru einnig Nonnahús, Davíðshús, Sigurhæðir og Gamli bærinn í Laufási. Alls sóttu um 23 þúsund manns þessi söfn á liðnu sumri. Haraldur Þór segir að það sé nokkru færri gestir en var í fyrrasumar, heldur hafi dregið úr aðsókninni milli ára.
Sumarið tók mikla dýfu hér, segir Níels Hafstein í Safnasafninu, en þar snarfækkaði innlendum gestum miðað við það sem áður hefur þekkst þeir voru um 1800 færri en var í fyrra. Aftur á móti fjölgaði erlendum gestum nokkuð, að sögn Níelsar.
Guðrún Steingrímsdóttir hjá Samámunasafni Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit segir að aðsókn í sumar hafi verið lakari en var síðastliðið sumar og munar þar um 700 manns. Aðsókn var þó vel viðunandi í júlí og ágúst, segir Guðrún. Og bætir við að aðsókn virðist fara mjög mikið eftir veðri, fólk af Suðurlandi ferðist ekki í miklum mæli norður í land ef hlýrra veður sé í boði í þeim landshluta.