Minna um holugeitung í sumar en áður

Mun meira var í sumar um svonefnda húsa- og trjágeitunga, en aftur á móti var minna en oft áður um holugeituna að sögn Hjalta Guðmundssonar meindýraeyðis á Akureyri. Hjalti segir að draga megi þá ályktun að kuldi í vor og sumarbyrjun valdi því að færri holugeitungar sáust í sumar.  

„En ég hef engar haldbærar skýringar á því af hverju það hefur verið svo mikið um holugeitung hér á Akureyri," segir hann.  Geitungar eru nú á hröðu undanhaldi enda hefur sumri hallað og haustið á næstu grösum.  „Ég er nú samt enn að eyða þetta tveimur til þremur geitungabúum á dag, en þetta er frekar að dala,"segir Hjalti.  Hann telur að breytt veðrátta, hlýnandi loftslag skipti mestu varðandi það að geitungum hefur almennt fjölgað.

Hjalti segir að nú í sumar hafi verið gríðarlega mikið um köngulær og tilheyrandi vefi, en þægilegt sé að losa sig við þær kjósi menn það, ekki þurfi að eitra nema einu sinni og þá sjáist þær ekki aftur næsta ár á eftir. „Það hefur verið nóg að gera í sumar, ég kvarta ekki yfir verkefnaleysi," segir Hjalti.  Nú í september segir hann að við taki að úða grenitré, en það er gert að haustlagi og til þess að verja þau fyrir lús sem oft og iðulega hefur skemmt tré af þeirri gerð.

Nýjast