Þórsarar lönduðu mikilvægum þremur stigum í kvöld er liðið lagði Fylki 2:0 á Þórsvelli í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. David Disztl kom Þór yfir snemma í fyrri hálfleik og Sveinn Elías Jónsson bætti við öðru marki snemma í síðari hálfleik. Með sigrinum í kvöld er Þór komið í 21 stig í níunda sæti en Fylkir hefur áfram 25 stig og siglir lygnan sjó um miðja deild.
Leikurinn á Þórsvelli fór fjörlega af stað þar sem heimamenn voru aðgangsharðari upp við markið fyrstu mínúturnar. Hvorugu liðinu tókst hins vegar að skapa sér ákjósanleg færi framan af fyrri hálfleik. Þórsarar áttu nokkrar efnilegar sóknir en síðasta sendingin fór oftar en ekki forgörðum.
Það voru svo heimamenn sem skoruðu verðskuldað fyrsta mark leiksins en það gerði David Disztl á 22. mínútu, er hann skallaði boltann í netið eftir aukaspyrnu frá Clarke Keltie. Boltinn hafði viðkomu í Janez Vrenko sem framlengdi á Disztl sem kláraði færið vel.
Þórsarar sóttu meira eftir markið og voru líklegri til að bæta við forystuna en Fylkismenn að jafna. Gestirnir vöknuðu hins vegar til lífsins eftir um 35 mínútna leik og sóttu hart að marki Þórs það sem eftir lifði hálfleiksins, en heimamenn féllu mjög aftarlega. Albert Brynjar Ingason fékk best færi Fylkis í fyrri hálfleik á 38. mínútu, er hann fékk svo til frítt skot í teignum en skaut beint á Rajkovic í marki Þórs. Þaðan barst boltinn til Þóris Hannessonar sem skaut hátt yfir. Illa farið með góð færi hjá Fylki en heimamenn sluppu með skrekkinn.
Staðan 1:0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað. Fylkismenn voru meira með boltann en heimamenn féllu full aftarlega á köflum. Það voru hins vegar heimamenn sem náðu öðru markinu og það skoraði Sveinn Elías Jónsson á 62. mínútu. Markið var í skondnara kantinum. Gísli Páll Helgason átti innkast á Jóhann Helga sem átti lélegan skalla að marki, þar sem Sveinn Elías tók við honum og renndi boltanum í netið.
Leikurinn var afspyrnurólegur næstu mínútur eða þangað til Jóhann Helgi fékk eitt besta færi leiksins. Hann var þá kominn einn í gegn en Fjalar Þorgeirsson gerði vel í að verja í marki Fylkis. Skömmu síðar fékk Albert Brynjar Ingason frábært færi fyrir Fylki en einn gegn Rajkovic í markinu brást honum bogalistinn og skaut beint á markvörðinn.
Þetta reyndist síðasta færi leiksins og því afar mikilvæg þrjú stig í hús hjá Þór í kvöld.