Þór vann í kvöld afar mikilvægan sigur á liði Aftureldingar er liðin mættust á Akureyrarvelli í 10. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Lokatölur leiksins urðu 3-2 sigur Þórs. Það var varamaðurinn Hreinn Hringsson sem skoraði sigurmark leiksins fyrir Þór átta mínútum fyrir leikslok.
Heimamenn í Þór mættu sprækir til leiks og voru meira með boltann á upphafsmínútunum en það voru gestirnir sem áttu fyrsta færi leiksins. Það kom á 9. mínútu þegar leikmaður Aftureldingar fékk frítt skot inn í teig heimamanna en boltinn fór naumlega framhjá markinu. Tveimur mínútum síðar var Sveinn Elías Jónsson kominn í gott færi fyrir Þór er hann stakk sér á milli tveggja varnarmanna gestanna og náði fínu skoti inn í teig sem var varið.
Á 25. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Sveinn Elías Jónsson vann þá boltann af leikmanni gestanna og sendi góða fyrirgjöf inn í teig gestanna, þar var mættur Ármann Pétur Ævarsson sem kom á fleygiferð og skallaði boltann af krafti í netið. Glæsilegt mark og staðan 1-0 fyrir heimamenn. Afturelding var hinsvegar ekki lengi að svara. Á 32. mínútu jafnaði Paul Clapson metin fyrir gestina er hann fékk sendingu inn í teig og skoraði í bláhornið.
Staðan 1-1 í hálfleik.
Þegar seinni hálfleikurinn var rétt rúmlega fjögurra mínútna gamall fengu heimamenn dæmda vítspyrnu þegar brotið var á Hreini Hringssyni inn í teig gestanna. Aleksandar Linta fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi og kom Þór yfir á nýjan leik. Staðan 2-1. Þórsarar héldu áfram að sækja að marki gestanna og voru mun líklegri til að bæta við marki en Afturelding að jafna. Aleksandar Linta átt hörkuskot að marki gestanna úr aukaspyrnu á 57. mínútu sem var naumlega varið.
Á 63. mínútu gerðust heimamenn hinsvegar brotlegir inn í eigin vítateig og Afturelding fékk dæmda vítaspyrnu. Paul Clapson fór á vítapunktinn og skoraði örugglega. Staðan 2-2. Átta mínútum síðar fékk Clapson fínt færi til þess að koma gestunum yfir er hann var sloppinn einn í gegnum vörn Þórs, en skot hans fór beint á Björn Hákon Sveinsson í marki heimamanna.
Það var svo á 82. mínútu að sigurmark leiksins kom. Hreinn Hringsson, sem hafði komið inn á sem varamaður í hálfleik fyrir Ottó Hólm Reynisson, slapp einn í gegnum vörn gestanna og hann gerði enginn mistök er hann skoraði örugglega framhjá markverði Aftureldingar og tryggði heimamönnum sigur, 3-2.
Geysilega mikilvægur sigur Þórs í miklum botnbaráttuslag. Með sigrinum er Þór komið með níu stig í deildinni og situr í 10. sæti.