Þröstur segir varðandi ritun á sögu íþrótta á Akureyri að verið sé að taka upp tíu ára gamalt mál, en forsvarsmenn ÍBA hafi vakið máls á því að þessi saga yrði skráð í kringum síðustu aldamót en þá hafi engin svör borist við ábendingum þar að lútandi. Þá hafi hugmyndin verið sú að skrá 100 ára sögu íþróttaiðkunar í bænum. „Á þeim tíma var ekki tekið neitt sérstaklega í þetta erindi okkar, en við snérum okkur til söguritara bæjarins og könnuðum hvort þessi saga gæti verið kafli í Sögu Akureyrar. Við fengum þau svör að hann ætti ekki heima inni í þeirri sögu, en var síðar bent á að sækja um styrk til ríkisins til að vinna verkið. Þá var komin kreppa og engir peningar til," segir Þröstur.
Hann bendir á að menn eins og Hermann Sigtryggsson og Haraldur Sigurðsson búi yfir mikilli þekkingu á íþróttasögu Akureyrar og mikilvægt sé að varðveita þá sögu áður en það sé um seinan. „Saga íþrótta á Akureyri er um margt merkileg og hér í bænum hafa íþróttir lengi verið stundaðar af kappi, íþróttalífið hefur alla tíð verið öflugt," segir hann og bætir við að á milli 4.500 til 5.000 börn og ungmenni stundi íþróttir af einhverju tagi. Þá segir Þröstur að hugmyndir um að koma upp íþróttasafni, sem m.a. myndi tengjast vetraríþróttum hafi lengi verið ræddar en málið ekki þokast neitt áfram. Mikill fjöldi muna er til sem prýtt gætu safn af þessu tagi. „Við höfum ekki fengið mikil viðbrögð við þessum hugmyndum heldur," segir hann.