Verð á svínakjöti hefur haldist óbreytt í tvö ár, þrátt fyrir að verðbólga hafi verið allt að 25% og fóður, fjármagn og annað hækkað umtalsvert. Ingvi kynnti í gær ýmsar tillögur fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd Alþingis. "Þær tillögur sem við leggjum fram og ábendingar snúast um á hvern hátt hægt er að grípa inn í það gjörbreytta umhverfi sem við búum við um þessar mundir. Þetta eru tillögur sem kosta ríkissjóð ekki neitt, en gætu snúið okkar málum til betri vegar," segir Ingvi. Hann segist skynja sterkt breytt viðhorf hjá neytendum sem nú vilji umfram allt kaupa innlenda framleiðslu. Í framhaldi af því þurfi að huga að því hvað er íslenskt, en um það viti neytendur ekki alltaf með vissu, sumt af því sem keypt er í verslunum og merkt sem íslensk framleiðsla sé það hreint ekki. "Það er sanngirniskrafa íslenskra neytenda að þeir séu upplýstir um hvort um innlenda framleiðslu sé að ræða eða innflutta," segir Ingvi.
Þá telur hann mikilvægt í sambandi við matvælalöggjöfina sem til umfjöllunar er á Alþingi að reynt verði að fá undanþágu frá ákvæði um að heimilt verði að flytja inn ferskt kjöt. Ingvi segir að áður hafi ekki verið pólitískur vilji fyrir hendi um að ræða slíkt, en breyttar aðstæður í þjóðfélaginu hafi kallað á viðhorfsbreytingu og hljóðið í mönnum sé nú með öðrum hætti en var. Ingvi vonast einnig til að samstarf náist á milli verslana og kjötvinnsla um að afnema skilarétt á kjöti. Almennt tíðkast að verslanir hafa rétt á að skila því kjöti sem ekki selst áður en líftími þess rennur út . Þannig er að sögn Ingva gríðarlegum fjármunum kastað á glæ, eða upphæðum sem hlaupa á hundruðum milljóna árlega. Væri skilarétturinn afnuminn er unnt að lækka verð á matvælum til hagsbóta fyrir neytendur. Hér sé um að ræða mál sem mikilvægt sé að viðkomandi aðilar leysi. Þá bendir Ingvi líka á að verði ekki hvikað frá ákvæðum matvælalöggjafar um innflutning á fersku kjöti muni samkeppnisstaða íslenskra bænda versna, flytji verslunin sjálf inn ferskt kjöt muni það fá mun betra hillupláss en hið innlenda og þar með meiri sölu.