Mikilvægt að gera átak í öryggismálum ferðamanna
Forsaga málsins er sú að ráðherrar ferðamála og umhverfismála óskuðu á vordögum 2010 eftir því að
Ferðamálastofa og Umhverfisstofnun leggðu fram minnisblað um öryggismál á ferðamannastöðum. Í minnisblaðinu var boðuð gerð
öryggisáætlunar fyrir ferðamannastaði, sem stofnanirnar tvær myndu hafa samvinnu um. Mikilvægt var talið að Slysavarnarfélagið Landsbjörg
tæki þátt í gerð slíkrar öryggisáætlunar. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri boðaði til
fyrsta fundar í septemberbyrjun og niðurstaða hans var m.a. að setja á laggirnar vinnuhóp sem ætlað var að fjalla um helstu þætti
áhættustýringar og setja fram drög að stefnumörkun um öryggismál á ferðamannastöðum. Í hópnum voru Gunnar
Stefánsson frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Ólafur Arnar Jónsson frá Umhverfisstofnun og Sveinn Rúnar Traustason frá
Ferðamálastofu.
Skapar grundvöll til skipulegrar vinnu
Afrakstur af starfi hópsins er skýrsla sem ber nafnið „Öryggi á ferðamannastöðum - Stefna til 2015". Með henni skapast grundvöllur til
skipulegrar vinnu að því að tryggja öryggi ferðamanna á ferðamannastöðum á Íslandi. Áætlunin verður lögð til
grundvallar við forgangsröðun aðgerða og mun m.a. geta orðið væntanlegri stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til leiðsagnar
við störf sín. Ennfremur tengist hún nýjum kröfum sem gerðar eru til ferðaþjónustufyrirtækja um gerð
öryggisáætlana, svo og gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, Vakanum. Saman munu þessi verkefni tryggja að Ísland verði
þekkt sem öruggt ferðamannaland, eins og segir í skýrslunni.
Gera þarf átak í öryggismálum
Meginniðurstaða skýrslunnar er að mikilvægt er talið að gert verði átak í öryggismálum ferðamannastaða hér á
landi. Útbúa þarf leiðbeiningar um öryggismál ferðamannastaða og gerð öryggisáætlana. Nauðsynlegt er jafnframt að tryggja
fjármagn til öryggismála og er lagt til að hægt verði að sækja fjármagn til úrbóta á ferðamannastöðum í
sameiginlegan sjóð. Í stefnunni er sett fram tillaga um skiptingu ábyrgðar, leiðir til að efla öryggi ferðamanna og skiptingu landsins í
svæði með tilliti til þjónustu og aðgengis. Þar sem nokkur óvissa ríkir um útfærslur í öryggismálum á
forgangssvæðum í hverjum landshluta er lagt til að forgangssvæðin verði tekin út af sérfræðingum í öryggismálum.
Nauðsynlegt er að slíkt mat fari fyrst fram á fjölförnustu ferðamannastöðunum innan þessa flokks þar sem fram komi tillögur til
úrbóta. Í framhaldi af þessum tillögum er talið nauðsynlegt að skilgreina næstu skref við gerð aðgerðaráætlunar, kalla
saman hagsmunaaðila og setja fram tímasetta og kostnaðargreinda aðgerðaráætlun. Lagt er til að Ferðamálastofu sé falið að sjá
um þessa vinnu.