Mikilvægt að enda tímabilið með sóma
Eftir úrslit síðustu helgar í 1. deild karla er ljóst að KA heldur sæti sínu í deildinni. Eftir 3:0 sigur gegn Gróttu á útivelli í síðustu umferð er KA komið með 23 stig í áttunda sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir og geta því ekki hafnað neðar en í tíunda sæti.
„Þetta er ákveðinn léttir og ánægjulegt að vera búnir að ýta þessum falldraug í burtu. Núna verðum við bara að einbeita okkur að því að klára tímabilið með sóma,“ segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA.
„Það gerist alltof oft að þegar engu er að keppa að þá fer þetta í einhverja meðalmennsku. Við höfum samt að einhverju að keppa og við viljum enda ofar í deildinni. Við verðum að halda dampi og njóta þess að spila núna áhyggjulausir án þess að það sé eitthvað fall í spilunum,“ segir Gunnlaugur.
Nánar er rætt við Gunnlaug í nýjasta tölublaði Vikudags.