"Mikilvægasti leikurinn til þessa"

Bjarni Konráð Árnason í leiknum gegn Breiðabliki. Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson.
Bjarni Konráð Árnason í leiknum gegn Breiðabliki. Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson.

„Planið var að vera ekkert með í vetur vegna vinnu. Svo gafst aðeins meiri tími og menn náðu líka að kveikja neistann og áhugann hjá mér aftur. Það er bara gaman að vera kominn aftur í þetta,“ segir Bjarni Konráð Árnason leikmaður Þórs. Bjarni lagði skóna á hilluna fyrir um ári síðan en hefur ákveðið að vera með Þórsliðinu í vetur í 1. deildinni. Bjarni kom inn í lið Þórs fyrir leikinn gegn Breiðabliki á dögunum og var fljótur að minna á sig en hann skoraði 17 stig í leiknum og var stigahæstur í liði heimamanna. „Þetta hefur ekkert verið nein glæsileg byrjun hjá okkur en er allt á uppleið. Við erum að vinna í því að fínstilla liðið og vera allir á sömu blaðsíðu,“ segir Bjarni. Þór á heimaleik gegn ÍG í kvöld kl. 19:15 í Höllinni og segir Bjarni tímabært að fara að taka fyrstu stigin, en norðanmenn hafa tapað fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu og verma botnsætið. „Þetta er mikilvægasti leikurinn á tímabilinu til þessa hjá okkur. Það er bara nauðsynlegt að þessi leikur vinnist en það verður ekkert gefins. Það eru gamlar kempur í þessu liði ÍG og þetta verður erfitt. Við þurfum hins vegar bara að ná þessum fyrsta sigri og þá hef ég fulla trú á að fleiri fylgi í kjölfarið,“ segir Bjarni.


Tveir erlendir leikmenn kallaðir til
Norðanmenn hafa brugðið á það ráð að styrkja liðið ennfremur með tveimur erlendum leikmönnum sem verða að öllum líkindum með á morgun. Þetta eru Bandaríkjamaðurinn Spencer Harris sem er leikstjórnandi og Serbinn Darko Milosevic. Darko lék tvö síðustu tímabil með KFÍ en Harris hefur ekki leikið áður hér á landi. Þá hefur Atli Rafn Hreinsson bæst í hóp Þórs en hann lék áður með liði Snæfells og ljóst að breiddin hjá Þór fer stækkandi. Þór lá gegn Breiðabliki, 78-89, í síðasta leik eins og áður segir en liðin áttust við í Höllinni á Akureyri sl. helgi. Þar var títtnefndur Bjarni stigahæstur í liði Þórs með 17 stig og Sindri Davíðsson skoraði 16 stig.

Nýjast