Ennfremur segir í ályktuninni: Við slíkar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að jafna kjörin í landinu og styrkja innviði samfélagsins. Efla þarf alla grunnþjónustu. Öflugt velferðarkerfi gerir okkur kleift að standa af okkur áföllin og með samstöðu og samheldni mun þjóðinni takast að vinna bug á erfiðleikunum enda undirstöður íslensks efnahagslífs traustar og til að byggja á til framtíðar. Forsenda samstöðunnar er hins vegar jöfnuður og félagslegt réttlæti. Kjarabilið hefur farið ört breikkandi, þar með talið kynbundið launamisrétti. Því er alfarið hafnað að almennt launafólk verði látið bera allan herkostnaðinn af óráðsíu og bruðli undanfarinna ára.
Á liðnum árum hafa fjármálamenn og stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja skuldsett samfélagið á óábyrgan og siðlausan hátt. Því þótt bankar og ýmsir almannasjóðir hafi verið einkavæddir sannast það nú eina ferðina enn að allt þjóðfélagið er undir þegar bankakerfið kemst í þrot. Trúnaðarmannaráð KJALAR stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu krefst ítarlegrar rannsóknar sem leiði í ljós hverjir eru ábyrgir fyrir hruni efnahagslífsins. Þá þarf að leiða í ljós hvernig fjármunum þjóðarinnar hefur verið sóað. Trúnaðarmannaráð KJALAR stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu gerir þá kröfu að Launanefnd sveitarfélaga gangi strax til samninga við KJÖL stéttarfélag um kjarasamning.