Mikilvæg þrjú stig í hús hjá Víkingum
SA Víkingar unnu sér inn mikilvæg þrjú stig í kvöld með því að leggja Björninn að velli, 4-2, er liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri á Íslandsmóti karla í íshokkí. Eftir afar rólegan og tíðindalítinn fyrsta leikhluta skoruðu heimamenn þrjú mörk í öðrum leikhluta og voru þar að verki Josh Gribben, sem skoraði tvívegis, og Daninn Lars Foder. Staðan því vænleg fyrir heimamenn fyrir þriðja og síðasta leikhluta
Hjörtur Björnsson og Bergur Einarsson minnkuðu muninn í 3-2 með mörkum á sjö mínútna kafla um miðjan þriðja leikhluta og allt í einu voru Bjarnarmenn komnir í bullandi sjens. Það voru hins vegar heimamenn sem áttu lokaorðið og Andri Sverrisson innsiglaði sigur Víkinga með marki á lokamínútunni.
Lokatölur 4-2 og afar mikilvæg þrjú stig hjá Víkingum í hús.
Þegar öll liðin í deildinni hafa leikið fjóra leiki er SR á toppnum með 12 stig, Björninn hefur 9 stig í öðru sæti, SA Víkingar 6 stig í þriðja sæti, SA Jötnar 3 stig og Húnar reka lestina án stiga.