Mikill áhugi á skólavist í framhaldsskólunum á Akureyri

Fjölmargar umsóknir bárust um skólavist í framhaldsskólunum á Akureyri að venju.  Gert er ráð fyrir að nemendafjöldi verði svipaður og verið hefur í báðum skólum, um 1400 nemendur í VMA og um 740 í MA.  

 „Við gerum ráð fyrir að nemendafjöldinn hjá okkur verði svipaður næsta haust og hann var síðastliðið haust, þ.e. um það bil 1400 nemendur í dagskóla," segir Hjalti Jón Sveinsson skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.  Rúmlega 1400 umsóknir bárust um skólavist, en Hjalti Jón kvaðst ekki eiga von á að allir umsækjendur myndu staðfesta skólavist.  Hann sagði að hafna hefði þurft á annað hundrað umsækjendum að þessu sinni.  „Aðsóknin er yfirleittt jöfn og góð í hinar ýmsu bóknámsbrautir," segir  Hjalti Jón.  Ljóst er aftur á móti, hvað verknámið varðar, að umsóknum  í byggingagreinar fækkar á milli ára á meðan þeim fjölgar í sjúkraliðanám, málmiðnaðarnám og matvælanám.

Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri  segir að skólinn hafi heimild til að hafa 740 nemendur samkvæmt fjárlögum, en heldur fleiri hafi verið teknir inn að þessu sinni og væntir hann þess að horft verði með góðvild til þess. Fjöldi umsókna barst frá nýnemum, bæði frá nemendum sem eru að koma upp úr 10. bekk og hafa lokið grunnskóla og eins frá hópi efnilegra nemenda sem lokið hafa 9. bekk.  Úr þeim hópi sóttu nú helmingi fleiri en áður um skólavist.  „Við höfum þurft að hafna um 30 nemendum, við gátum ekki tekið við öllum sem sóttu um skólavist hjá okkur, því miður," segir Jón Már.

Hann segir að boðaður niðurskurður í framhaldsskólum upp á 5% geri að verkum að þyngra verði fyrir fæti en áður.  Hann segir að áhersla verði lögð á grunnþjónustu og  líklegt sé að ýmis konar viðbótarþjónusta verði nú skorinn af, þjónusta sem bæði stóð nemendum og kennurum til boða.  Nemendur verði nú sjálfir að vera meira á varðbergi gagnvart námi sínu og óska eftir aðstoð af fyrra bragði þurfi þeir á að henni að halda.

Nýjast