Mikil vonbrigði að Alcoa hafi hætt við

Alcoa hefur hætt við áform um byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Mynd: Hörður Geirsson.
Alcoa hefur hætt við áform um byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Mynd: Hörður Geirsson.

Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og ráðherra til margra ára, segir að það séu mikil vonbrigði að Alcoa hafi hætt við þau áform að byggja álver á Bakka við Húsavík. Valgerður var iðnaðaráðherra þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu við Alcoa árið 2006 til undirbúnings uppbyggingu álvers þar.

“Auðvitað vona ég að yfirlýsingar stjórnvalda og Landsvirkjunar um að áhersla verði lögð á atvinnuuppbyggingu á norðausturlandi á næstu árum eigi við rök að styðjast. Svæðið býr yfir gríðarlega mikilli orku sem ekki hefur verið virkjuð nema að litlu leyti. Eftir að núverandi ríkisstjórn var mynduð kom í ljós að ýmis ljón voru á veginum og þarf það reyndar ekki að koma á óvart miðað við hvernig alþingismenn úr vinstri flokkunum höfðu beitt sér gegn framkvæmdunum á Austurlandi,” segir Valgerður.

Hún segist jafnframt hafa gert sér grein fyrir því að fyrirtækið Alcoa væri ekki áhugasamt um að fara með stórar fjárfestingar inn í lönd í andstöðu við ríkjandi stjórnvöld. Valgerður segir að þetta mál hafi svo sannarlega verið sér ofarlega í huga alla tíð, þar sem hún átti aðkomu að því í upphafi.

“Þegar Norðlendingar sáu hvað framkvæmdir Alcoa á Austurlandi voru gríðarlega mikilvægar fyrir byggð á Austurlandi kom mikill þrýstingur þaðan um uppbyggingu álvera. Þetta var í minni tíð sem iðnaðarráðherra. Sveitarstjórnarmenn og íbúar í Norðurþingi, á Eyjafjarðarsvæðinu, í Skagafirði og Húnavatnssýslu stefndu allir á uppbyggingu álvera. Augljóst var að af þessu gæti ekki orðið. Því höfðum við í iðnaðarráðuneytinu frumkvæði að því að farið var í mjög mikilvæga greiningarvinnu í samstarfi við Alcoa og viðkomandi sveitarfélög. Húnvetningar komu reyndar óbeint að málinu. Markmiðið með starfinu var að finna út hvar á Norðurlandi hagkvæmast væri að byggja álver með tilliti til orkuöflunar, umhverfismála og fleiri þátta. Niðurstaðan var að Bakki við Húsavík væri æskilegasta svæðið. Í framhaldinu var undirrituð viljayfirlýsing til undirbúnings uppbyggingu álvers á Bakka.”

Aðspurð segist Valgerður jafnframt óttast að grundvöllur Vaðlaheiðarganga  hafi veikst með þessari niðurstöðu Alcoa. Hún hefur lengi talað fyrir mikilvægi Vaðlaheiðarganga og skrifaði m.a. grein í Tímann um það mál snemma á þingmannsferli sínu. “Þá voru jarðgöng undir Vaðlaheiði ekki komin inn í umræðuna um jarðgöng á Íslandi.”

 

Nýjast