Mikil þörf fyrir fleiri íbúðir á Akureyri

Akureyri. Mynd/epe
Akureyri. Mynd/epe

mth@vikubladid.is

„Þörfin er mikil og við höfum átt viðræður við Akureyrarbæ þar sem við höfum lýst yfir áhuga okkar á að bæta við fimm til sjö íbúðum árlega á næstu árum á grundvelli laga um Almennar íbúðir þar sem möguleiki er á stofnframlögum frá ríki og viðkomandi sveitarfélagi,“ segir Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri Brynju leigufélags ses.

Brynja leigufélag ses. er sjálfseignarstofnun sem hefur þann tilgang að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Félagið leitast við að leigja íbúðir gegn eins hóflegu gjaldi og kostur er og má ekki leigja húsnæðið öðrum en öryrkjum og stofnunum sem veita öryrkjum þjónustu nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Eiga 42 íbúðir á Akureyri

Brynja á nú 42 íbúðir á Akureyri og hefur sinnt útleigu þeirra í samvinnu við félagsþjónustu bæjarins. „Við eigum nokkur ónotuð stofnframlög og hefðum áhuga á að bæta við okkur sérstaklega 2ja herbergja íbúðum núna í haust og erum í stöðugu samtali við bæinn um samstarf og samvinnu á þessu sviði,“ segir Guðbrandur.

Brynja leggur áherslu á leiguíbúðir fyrir öryrkja sem geta verið í sjálfstæðri búsetu. Húsnæðismál eru á hendi sveitarfélaga og er útleiga íbúða á vegum Brynju til viðbótar og stuðnings við hlutverk sveitarfélaganna.


Athugasemdir

Nýjast