Mikil stemmning á tónleikum til heiðurs Ingimari Eydal

Húsfyllir var á tvennum tónleikum til heiðurs Ingimari Eydal í Hofi í gærkvöld og mikil stemmning í salnum. Yfirskrift tónleikanna er "Fjölskylduferð í Skódanum" sem er tilvísun í brandara sem gjarnan var sagður af Ingimari en vísar líka til þess að tónleikararnir sýna fleiri hliðar á Ingimari en áður hafa komið fram.
Þriðju og síðustu tónleikarnir eru svo í dag kl. 16.00 og eru örfá sæti laus. Tónlistar- og hljómsveitarstjóri er Karl Olgeirsson og með honum á sviðinu er sannkallað stórskotalið eða þeir Gunnar Gunnarsson, Jón Rafnsson, Sigurður Flosason, Hannes Friðbjörnsson og Jón Elvar Hafsteinsson. Það eru svo þau Guðrún Gunnarsdóttir og Stefán Hilmarsson sem sjá um söng ásamt Ingu Eydal og Ingimari Birni Davíðssyni. Heiðursgestir verða svo söngvararnir ástsælu Helena Eyjólfsdóttir og Þorvaldur Halldórsson.
Ingimar var fæddur 20. október 1936 og hefði því orðið 75 ára á þessu ári hefði hann lifað. Inga Dagný Eydal, dóttir Ingimars, segir að undirbúningur tónleikanna hafi gengið vel. Við erum að upplifa mikinn áhuga og hlýhug frá fólki. Greinilegt að fólki þótti vænt um Ingimar Eydal og vill vera með í fjölskylduferðinni okkar. Upphaflega áætluðum við tvenna tónleika sem seldust fljótt og vel og til að gefa fleirum kost á að njóta settum við inn miðnæturtónleika á laugardagskvöld. Enn eru laus sæti þá og fer nú hver að verða síðastur að komast yfir miða þar sem einungis verður um þessa einu helgi að ræða. Við verðum með báða flygla Hofs á sviðinu í einu alla tónleikana og mun það vera einsdæmi, segir Inga.