Mikil samþjöppun í eignarhaldi hefur hættur í för með sér

Samþjöppun sem orðið hefur á eignarhaldi svínabúa kemur mjög illa við greinina.  Hún getur haft í för með sér margvíslegar hættur, t.d.  ef upp koma  alvarlegir sjúkdómar á búunum sem leiðir til þess að skortur verður á kjöti með tilheyrandi áhrifum á markaðinn. Þá er einnig sú  hætta fyrir hendi að smit berist til  nálægra þéttbýliskjarna.  

Vandi svínaræktar er mikill um þessar mundir og hefur Jón Bjarnason sjávar- og landbúnaðarráðherra skipað starfshóp til að að leysa úr þeim vanda sem steðjar að svínarækt í landinu. Greinin hefur í áratug gengið í gegnum tvö tímabil offramleiðslu, gjaldþrota og verðfalls afurða en samhliða hefur þróunin orðið sú að aukin samþjöppun er í eignarhaldi og mikil afskipti bankastofnana undanfarin misseri hafa svo veikt samkeppnisgrundvöll smærri rekstrareininga.

Hörður Harðarson formaður Svínaræktarfélags Íslands segir að fjármálastofnanir hafi í nokkrum tilvikum gripið inn í rekstur svínabúa, tekið við rekstri nokkurra stórra búa og  afskrifað verulegan hluta áhvílandi skulda. Annað sé uppi á teningnum þegar kemur að fjölskyldubúum, þar sem séu bændafjölskyldur með allar sínar eigur, land og heimili veðsett fyrir lánum. Stjórnendur banka virðast líta svo á að þar séu fyrir hendi þokkaleg veð komi til greiðsluerfiðleika.

Hörður segir íslenska markaðinn lítinn og ekki fyrir hendi möguleikar á útflutningi vegna óréttlátra milliríkjasamninga. „Það er brýnt að fara yfir þessi mál og ég vona að vinna starfshópsins skili einhverjum árangri. Það þarf að vinna að stefnumótun varðandi svínarækt hér á landi til framtíðar og skerpa línur. Svínarækt á Íslandi getur átt framtíð fyrir sér ef rétt er á spöðunum haldið. Það er mikilvægt að stefna að því að nýta betur innlent fóður og tækifæri á þeim vettvangi eru fyrir hendi," segir Hörður og bendir á að svínaræktin þurfi um 20 þúsund tonn af ári til fóðuröflunar. Yrði kornrækt aukin verulega hér á landi og afurðir nýttar í svínafóður væri hægt að spara umtalsverðan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið og gera rekstur búanna hagkvæmari.

Nýjast