"Hún er keimlík stöðu annarra atvinnuvega, heilt yfir eru langflestir of skuldugir og gildir þá í raun einu hvað atvinnugreinin heitir og þetta á líka við um heimilin í landinu." Sigurgeir segir óvissuna sem ríkir versta, bændur séu á þessum tíma að huga að áburðarkaupum fyrir vorið, en verð hafi enn ekki verið gefin upp og þá setji líka strik í reikninginn að spáð hafi verið efnahagslægð á heimsvísu með vorinu. "Það er mikil óvissa ríkjandi sem er afar slæmt og bændur eru eiginlega bara í lausu lofti, það er ómögulegt að sjá fyrir hver þróunin verður og ef aftur harðnar á dalnum í vor hefur það verulega slæmar afleiðingar."
Hann segir að bændur muni eflaust leita allra leiða til að spara við sig áburðarkaup og reyna að nýta heimfengin áburð sem mest. Þá hafi heyjast óvenjuvel á liðnu sumri og flestir eigi góðar fyrningar, "og nú verða menn bara að gjöra svo vel og vanda sig," segir hann. Þó svo að illa ári og margir standi höllum fæti telur Sigurgeir að bankarnir muni ekki að svo stöddu ganga hart fram í að sækja að mönnum og krefjast gjaldþrota. Kaupendur jarða bíði ekki í röðum um þessar mundir, "og þess vegna reikna ég síður með því að gengið verði að bændum nú, en ég óttast ástandið þegar fer að létta til, þá má búast við að stabbinn sem menn standa frammi fyrir verði býsna stór." Telur hann einsýnt að stjórnvöld verði með einhverjum hætti að liðka til með atvinnuvegunum almennt, en ítrekar að engar töfralausnir séu til.