Mikil hátíðarhöld á Húsavík 1. maí

Það er jafnan fjölmenni á 1.maí hátíðarhöldunum á Húsavík. Mynd: JS
Það er jafnan fjölmenni á 1.maí hátíðarhöldunum á Húsavík. Mynd: JS

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum standa fyrir veglegum hátíðarhöldum í íþróttahöllinni á Húsavík á baráttudegi verkafólks sunnudaginn 1. maí. Fram koma landsþekktir skemmtikraftar s.s. Friðrik Ómar, Jógvan, Stefán Jakobsson, Andri Ívarsson, Gísli Einarsson og Karlakórinn Hreimur. Ræðumenn dagsins verða Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar. Búist er við miklu fjölmenni í höllina en dagskráin hefst kl. 14:00.

Þá munu Stéttarfélögin bjóða um þrjú hundruð starfsmönnum sem verða við störf um helgina á vegum verktakafyrirtækja sem tengjast framkvæmdunum á Þeistareykjum, Bakka, hafnarsvæðinu á Húsavík og við gangnagerð í Vaðlaheiðargöngum upp á hátíðartertur. Það er í vinnubúðum starfsmanna sem eru á Húsavík, Þeistareykjum og við Vaðlaheiði. Starfsmenn stéttarfélaganna munu heimsækja vinnubúðirnar á föstudaginn og laugardaginn og færa þeim tertur.

 

Nýjast