Mikið vatnstjón varð í Ráðhúsinu á Akureyri í dag en talið er að vatnskrani í eldhúsi hafi gefið sig á fjórðu hæð hússins með þeim afleiðingum að vatn rann á milli hæða. Það er mbl.is sem greindi frá.
Haft er eftir Magnúsi Smára Smárasyni, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu á Akureyri, að starfsmenn ráðhússins hafi orðið varir við lekann þegar þeir komu þangað upp úr klukkan hálfátta í morgun. Voru þeir búnir að skrúfa fyrir þegar slökkviliðið mætti á vettvang.
„Þetta er gríðarlegt tjón. Þetta byrjar á efstu hæð og lekur á milli hæða. Það mun líða talsverður tími þangað til hægt er að meta rauntjónið sem varð í þessum atburði,“ segir Magnús Smári, við mbl.is
Einnig skemmdust gólfefni og loftplötur en starfsfólk ráðhússins tók þátt í að þurrka upp vatnið.
Slökkviliðið lauk störfum á vettvangi upp úr klukkan níu í morgun.