Mikið undir fyrir ferðaþjónustuna

Skemmtiferðaskip eru væntanleg í sumar. Mynd/Þórir Tryggvason.
Skemmtiferðaskip eru væntanleg í sumar. Mynd/Þórir Tryggvason.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir mikið undir fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi að fá þokkalegt ferðasumar í ár og er ágætlega bjartsýn. „Við eigum von á því að Íslendingar verði duglegir að ferðast um Norðurland. Reynslan frá því í fyrra var góð og landsmenn voru ánægðir með gæði þjónustunnar og áttuðu sig á hversu mikil afþreying er í boði á svæðinu,“ segir Arnheiður, sem býst líka við erlendum ferðamönnum. „Við erum byrjuð að sjá bókanir tínast inn frá erlendum ferðamönnum, þar virðast ferðalög ætla að byrja í júlí og seinnipart sumars en þó er aðeins hreyfing í júní. Hvernig þetta fer mun þó ráðast algjörlega eftir stöðunni á faraldrinum. Áherslan er í raun meiri á innanlandsmarkaðinn, hann er líklegri til að skila sér í einhverjum mæli í sumar,“ segir Arnheiður.

Fyrirtækin berjast í böggum

Arnheiður segir gríðarlega mikilvægt fyrir norðlenska ferðaþjónustu að fá inn einhverja traffík í sumar og haust þar sem árstíðarsveiflan er mikil í ferðaþjónustunni hér. „Lélegt sumar myndi þar af leiðandi þýða tveggja ára stopp hjá okkur vegna Covid-19 og það hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur fyrirtækjanna.“ Hún segir að ekki hafi mörg fyrirtæki lagt upp laupana endanlega í faraldrinum. Stærstur hluti fyrirtækja sé bjartsýnn á að lifa þetta af. „Hins vegar eru mörg fyrirtæki sem eru með lokað eða halda rekstrinum í algjöru lágmarki nú á meðan markaðir eru lokaðir. Það mun síðan taka einhvern tíma að ná fullum krafti aftur,“ segir Arnheiður.

Von á skemmtiferðaskipum

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, segir í samtali við blaðið eiga von á því að eitthvað verði um skemmtiferðaskip í sumar. „Það er aðeins að birta yfir í þessu. Ég reikna með að þetta verði tugir skipa sem komu en það er erfitt að segja nákvæma tölu. Þetta er töluvert betra en í fyrra þegar ekkert skip kom,“ segir Pétur og bætir við: „Nokkur skipafélög hafa þegar gefið út að þau ætli að sigla hingað með bólusetta farþega.“

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast