Mikið um fyrirspurnir vegna árshátíðaferða

Hótel Kea. Mynd: Hörður Geirsson.
Hótel Kea. Mynd: Hörður Geirsson.

„Sumarið var ágætt, það fór rólega af stað og júní var raunar ekki neitt sérstakur en í heildina kom það þokkalega út,“ segir Sigurbjörn Sveinsson hótelstjóri á Hótel Kea. Veðurfar í júní skipti þar miklu, en strax og fór að hlýna fjölgaði ferðamönnum.

Sigurbjörn segir að nýting í júlí hafi verið ágæt og ágústmánuður verið góður, þannig að i heildina hafi sumarið verið í meðallagi.  Hann segir að það sem af er þessum mánuði hafi margt verið um manninn og útlit fyrir að september verði ágætur.  „Svo er fremur rólegt framundan, en það getur breytst, við fáum til okkar mikið af fólki sem m.a. kemur til að fylgjast með menningunni og fundum það vel í fyrrahaust þegar verið var að sýna Rocky Horror.

Það skiptir okkur því máli að eitthvað sé um að vera á menningarsviðinu,“ segir Sigurbjörn.  Eins segir hann að alltaf sé töluvert um að vera á hótelinu í tengslum við atvinnulífið.Örn Árnason Amin rekstrarstjóri hjá Sæluhúsum segir að fyrsta heila sumarið i rekstri húsanna hafi komið vel út.

„Miðað við að þetta er fyrirtæki í uppbyggingu, alveg nýtt og margt óunnið varðandi markaðssetningu þá var sumarið gott,“ segir Örn. Hann segir að útlitið fyrir komandi vetur sé ágætt, mikið sé um að fólk sem áður hafi gist hjá Sæluhúsum komi aftur eða ætli sér að koma í vetur.  Skíðafólk gisti t.d. í töluverðum mæli í húsum félagsins.  Þá segir hann að þessa stundina rigni inn fyrirspurnum frá fólki af suðvesturhorninu sem eru að skipuleggja árshátíðarferðir í haust og vetur.

„Það er greinilega mikill áhugi fyrir því að koma norður og menn eru að leita tilboða. Núna er mikið um fólk sem er bara að slappa af og njóta lífsins. Akureyri hefur upp á margt að bjóða og greinilegt að íbúum höfuðborgarsvæðisins þykir gott að slaka á fyrir norðan, en hafa samt allt innan seilingar eins og góða veitingastaði, verslanir og fleira,“ segir Örn.

Nýjast